Fréttir | Mataræði.is

Fréttir

Fá konur verri meðferð við hjartaáfalli en karlar?

3723779 m

22/Feb/2012. Konur eru ólíklegri en karlar á sama aldri til þess að upplifa brjóstverk sem upphafseinkenni hjartaáfalls. Þetta kann að leiða til þess að töf verður á greiningu. Horfur kvenna sem fá hjartaáfall eru almennt verri en karla á sama aldri. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem skoðaði meira en milljón innlagnir vegna hjartaáfalls á spítala í Bandaríkjunum á árabilinu 1994 - 2006. Rannsóknarniðurstöðrnar voru birtar í dag í JAMA (Journal of the American Medical Association) og má nálgast hér.

Um 42% kvennanna lýstu ekki brjóstverk við komu. Færri karlar gáfu ekki sögu um brjóstverk, eða 31%. Þessi munur á einkennum karla og kvenna var mest áberandi í yngri aldurshópunum. Um 15% kvenna með hjartaáfall létust í sjúkrahúslegunni en um 10% karlanna. Rannsakendurnir benda á að erfiðara sé að greina hjartaáfall ef sjúklingurinn er ekki með brjóstverk og því sé líklegra að töf verði á greiningu hjá konum en körlum. Slík töf getur leitt til þess að konur fá viðeigandi meðferð að jafnaði síðar en karlarnir sem getur haft veruleg áhrif á batahorfur. Dæmi um einkenni sem konur sem ekki upplifa brjóstverk fá eru mæði, magnleysi, ógleði, uppköst, verkir í kjálka og á millii herðablaða.  

Þeir einstaklingar sem ekki upplifðu brjóstverk, bæði konur og karlar, komu að meðatali tveimur tímum síðar eftir að einkenni byrjuðu inn á bráðamóttöku en þeir sem fengu brjóstverk. Almennt var hjartalínurit á bráðamóttöku tekið síðar ef einstaklingurinn var ekki með brjóstverk en ef hann var með verk.

Í yngri aldurshópunum fengu karlarnir viðeigandi meðferð til að losa kransæðastífluna að jafnaði fyrr eftir komu á bráðamóttöku en konurnar. Líklegt er að þessi meðferðartöf hafi almennt leitt til stærra hjartavöðvadreps meðal kvennanna en karlanna og skýri hvers vegna þeim farnaðist ver.

Cam Patterson, yfirmaður hjartalækninga á University of North Carolina - Chapel Hill segir: "Okkur hefur mistekist að upplýsa konur um hjartasjúkdóma. Þegar ég spyr konuna mína hvað hún sé hræddust við svarar hún brjóstakrabbamein. Samt eru sex sinnum meiri líkur á að hún deyi úr hjartasjúkdómi. Við eigum mikið verk fyrir höndum að upplýsa um konur og hjartasjúkdóma."

Go Red eru alþjóðleg samtök sem hafa það að markmiði að vekja athygli á hjartasjúkdómum meðal kvenna. Í tilefni Go Red dagsins 19. febrúar s.l. var myndbandið hér að neðan gefið út. 



Næstum helming krabbameina má rekja til lífsstíls

6568828 m

15/Feb/2012Rúmlega fjögur af hverjum tíu krabbameinum má rekja til lífstíls og umhverfisþátta. Hegðunar-mynstur okkar ræður því miklu um hvort við fáum krabbamein eða ekki. Þar ber hæst þætti eins og reykingar, mataræði, líkamsþyngd og vinnuumhverfi. Þetta kemur fram í grein sem birt var nýlega í British Journal of Cancer.

Aðalhöfundur greinarinnar, prófessor Max Parkin sem starfar við Queen Mary Unviersity of London segir: "margir telja að krabbamein skýrist aðallega af erfðum eða öðrum óviðráðanlegum þáttum" og að það sé einungis "tilviljun hver dregur stráið". "Sé litið á öll tiltæk gögn er þó ljóst að rekja má um rúmlega 40% krabbameina til orsakaþátta sem við getum haft veruleg áhrif á."

Við útreikninga sína skoðuðu vísndamennirnir 18 mismunandi krabbamein og 14 lífstíls - eða umhverfisþætti í Bretlandi á árabilinu 1993 - 2007. Reykingar voru langstærsti áhættuþátturinn fyrir krabbameini hjá báðum kynjum 

Fyrir karlmenn virðist skipta mestu máli að hætta að reykja, borða meira af ávöxtum og grænmeti og draga úr áfengisneyslu. Fyrir konur skiptir mestu máli að hætta reykingum og gæta að líkamsþyngdinni.

Prófessor Parkin segir: "Við áttum ekki von á því að neysla á ávöxtum og grænmeti væri svona mikilvægur þáttur í tilurð krabbameina hjá karlmönnum. Það kom okkur einnig á óvart að of mikil líkamsþyngd væri eins sterkur áhættuþáttur hjá konum og raun bar vitni."

 57173225 cancer causes m w2 624gr

Talið er að rekja megi 134 þúsund krabbameinstilvika í Bretlandi á ári til lífstíls-og umhverisþátta.  Stærsta hlutann, um 100 þúsund tilvik má rekja til reykinga, mataræðis, áfengisdrykkju og of mikillar líkamsþyngdar. Eitt af hverjum 25 krabbameinstilvikum má rekja vinnuumhverfis og þátta eins og eitrana eða efnamengunar, snerting við asbest er dæmi um slíkt. Þá hefur reyndar verið vitað lengi að reykingar eru meginorsök lungnakrabbameins. 

Ýmislegt annað kom vísindamönnunum þó meira á óvart. T.d. tengdist 10% af hættunni á brjóstakrabbameini of hárri líkamsþyngd. Þannig var líkamsþyngdin mun sterkari áhættuþáttur en áfengi eða hvort og hversu mikið konan hefði stundað brjóstagjöf.

Hvað vélindakrabbamein varðar töldu greinarhöfundarnir helming áhættunnar tengjast of lítill neyslu á ávöxtum og grænmeti, fimmtungur var rakinn til áfengisneyslu. Magakrabbeimein var í fimmtungi tilvika talið tengjast of mikilli saltneyslu. Meiri hluta krabbameina í munnholi og hálsi má rekja til hegðunar og lífstíls en mjög lítinn hluta sumra annarra krabbameina eins og t.d. krabbameins í gallblöðru. 

Ljóst er að margir veikjast af krabbameini án þess að rekja megi það til þátta í umhverfi okkar, lífstíl eða hegðunarmynstri. í mörgum tilvikum er um að ræða erfðir eða aðra orsakaþætti sem við þekkjum ekki eða ráðum ekki við. Hins vegar er ljóst að breytingar á lífstíl og umhverfisþáttum geta fækkað krabbameinstilvikum umtalsvert.


Heimildir

DM Parkin, L Boyd, LC Walker. The fraction of cancer attributable to lifestyle and environmental factors in the UK in 2010. British Journal of Cancer (2011) 105, S77 – S81.

BBC News Health


 


Geta vítamín og steinefni dregið úr hættu á ristilkrabbameini?

9015616 m

06/Feb/2012Kanadískir vísindamenn kynntu nýlega rannsóknarniðurstöður sem benda til þess að regluleg inntaka vítamína og steinefna geti lækkað hættuna á ristilkrabbameini í rottum. Niðurstöðurnar voru birtar í janúarhefti tímaritsin Canadian Journal of Physiology and Pharmacology og hafa vakið talsverða athygli. Ritsjóri tímaritsins, Dr. Grant Pierce, segir að fram að þessu hafi verið óljóst hvort regluleg inntaka fjölvítamína sé hjálpleg fyrir krabbameinssjúklinga. Hann telur rannsókn þessa gefa vísbendingu um að svo geti verið.

Í rannsókninni var tilraunarottum skipt í sex hópa sem fengu sérstakt áhættumataræði og krabbameinshvetjandi efni (carcinogen). Rottur sem nærðar voru í 32 vikur á mikilli fitu og litlu trefjamagni auk carcinogen efna sýndi merki um illkynja mein í ristli. Þessi tilhneiging sást mun sjaldnar hjá þeim rottum sem að auki fengu fjölvítamín og steinefni daglega. Höfundar greinarinnar draga þá ályktun að vítamín og steinefni dragi úr hættu á krabbameinsmyndun í ristli við þessar tilbúnu aðstæður þar sem hættan á krabbameini er mjög mikil. 

Krabbamein í ristli er um 8% allra illkynja æxla á Íslandi. Þetta æxli er heldur algengara hjá körlum en konum. Meðalaldur við greiningu er um 71 ár. Margt er óljóst um orsakir sjúkdómsins. Erfðir gegna miklu hlutverki í vissum gerðum ristilkrabbameins en erfðafræðilegir þættir eru þó ekki taldir orsaka nema 5% allra ristilkrabbameina. Flestir sem greinast eru eldri en fimmtugir og geta fæstir þeirra talist vera í einhverjum sérstökum áhættuhópi. Nokkrir áhættuhópar eru þó þekktir, t.d. einstaklingar með sterka ættarsögu um ristilkrabbamein, fólk með ákveðna gerð ristilsepa eða þekkta langvinna bólgusjúkdóma í ristli. 

Lengi vel var talið að lítil neysla trefja væri áhættuþáttur fyrir ristilkrabbameini en rannsóknir hafa þó ekki staðfest það með vissu. Rannsóknir seinni ára benda til að offita, lítil líkamleg hreyfing, mikil áfengisneysla, lítil neysla fólinsýru og mikil neysla á rauðu kjöti auki líkurnar á ristilkrabbameini. Mikil neysla ávaxta og grænmetis er talin hafa verndandi áhrif. Vísbendingar eru um að skimun fyrir ristilkrabbameini með ristilspeglun og fjarlægingu ristilsepa geti dregið úr nýgengi sjúkdómsins og lækkað dánartíðni. 

Heimildir: 
Fréttatilkynning NRC Resarch Press - Regular use of vitamin and mineral supplements could reduce the risk of colon cancer
Krabbamein á Íslandi - Upplýsingar úr Krabbameinsskrá fyrir tímabilið 1957-2006. Jón Gunnlaugur Jónsson og Laufey Tryggvadóttir (ritstjórar). Krabbameinsfélagið, Reykjavík 2008.          
                                                                                                                    


© Axel F Sigurdsson 2012