Í kvöldfréttum Stöðvar 2 á þessum ágæta sunnudegi var fjallað stuttlega um niðurstöður nýrrar íslenskrar rannsóknar á áhrifum mismunandi tegunda af skyndibita á blóðsykur.
Í fréttinni kom fram að þátttakendur rannsóknarinnar voru látnir borða tvenns konar máltíðir. Annars vegar laxaborgara í grófu súrdeigsbrauði með salati og appelsínusafa og hins vegar beikonborgara og gosdrykk. Þessar tvær máltíðir innihéldu jafnmargar hitaeiningar og hlutfall kolvetna, fitu og eggjahvítu var það sama. Rætt var stuttlega við Fjólu Dröfn Guðmundsdóttur næringarfræðing sem framkvæmdi rannsóknina. Í ljós kom að blóðsykur og insulín í blóði þátttakenda hækkuðu tvöfalt meira eftir neyslu beikonborgarans en laxaborgarans. Jafnframt kom fram að munurinn var marktækt meiri hjá þeim sem voru of þungir en hjá þeim sem voru í kjörþyngd.
Innan um hinar fréttirnar í kvöld hljómaði þetta kannski ekki sérlega spennandi. En skoðum málin aðeins nánar. Niðurstöðurnar eru nefnilega mjög áhugaverðar fyrir margra hluta sakir og hjálpa okkur hugsanlega að skilja eitthvað af því sem fer úrskeiðis hjá einstaklingum sem þjást af offitu.
Það er nokkuð vel þekkt að insulínframleiðsla og stjórnun blóðsykurs eftir máltíðir ræður miklu um það í hversu miklum mæli líkaminn breytir umframorku í fitu. Ef blóðsykur hækkar mikið og skart verður insulínframleiðsla meiri sem getur ýtt undir offitu.
Rannsóknin sýnir að máltíð sem hefur sömu samsetningu meginorkugjafa ( kolvetni, eggjahvíta og fita) og sama magn hitaeininga hefur mismunandi áhrif á blóðsykur og insulínframleiðslu. Það eru því sennilega öllu meiri líkur á að þú fitnir af beikonborgaranum en laxaborgaranum þótt þeir innihaldi sama magn hitaeininga. Þetta stríðir reyndar gegn einu af meginlögmálum eðlisfræðinnar ("first law of thermodynamics") sem Rudolf Clausius setti fram árið 1850. Clausius sagði: "In all cases in which work is produced by the agency of heat, a quantity of heat is consumed which is proportional to the work done; and conversely, by the expenditure of an equal quantity of work an equal quantity of heat is produced."
Nú er ég kominn langt út fyrir efnið!
Hins vegar er niðurstaða Fjólu í samræmi við það sem ýmsir vísindamenn hafa áður sagt; kaloríur eru ekki sama og kaloríur. Þú getur fitnað meira af þúsund kaloríum en af þúsund kaloríum.
Annað sem Fjóla sýnir fram á er að munurinn á blóðsykurhækkun og insulínframleiðslu eftir beikonborgara en eftir laxaborgara er meiri hjá feitum einstaklingum en þeim sem eru í kjörþyngd. Þannig eru feitir einstaklingar líklegri til að fitna meira en þeir sem ekki eru feitir þótt þeir neyti sömu fæðu. Svo virðist sem stýrikerfi þeirra sem þjást af offitu virki ekki eðlilega undir þessum kringumstæðum, blóðsykur hækkar óeðlilega mikið og insulínframleiðsla verður of mikil. Þetta kann að ýta undir offitu. Sumir sérfræðingar hafa talað um kolvetnaóþol (carbohydrate intolerance) þegar líkaminn getur ekki höndlað kolvetni á eðlilegan hátt.
Niðurstöðurnar geta því bent til þess að of feitir einstaklingar séu líklegri til að fitna meira af óhollum skyndibita en þeir sem eru í kjörþyngd. í þessu tilviki er það ekki hitaeiningafjöldinn sem skiptir máli né magn fitu eða kolvetna. Fram kemur að laxaborgarinn hefur meira trefjamagn sem líklega leiðir til þess að fæðan hefur lægri sykurstuðul (glycemic index) sem getur skýrt hvers vegna blóðsykur hækkar minna en ella. Þá er fitusýrusamsetningin í laxaborgaranum einnig hagstæðari en óvíst er hvaða áhrif það hefur á niðurstöðurnar.
Ég hlakka til að fá að vita meira um þesa rannsókn, framkvæmd hennar, helstu niðurstöður og hvernig þær eru túlkaðar.