Atkins mataræðið

Atkins mataræðið mataræðið var upphaflega ætlað einstaklingum sem glíma við offitu. Megináhersla er lögð á að draga úr  neyslu kolvetna á sama tíma og hvatt er til aukinnar neyslu á fitu. 

Ferlinu er skipt í fjögur þrep.  Fyrsta þrepið byggist á mjög lítilli kolvetnaneyslu (20 g eða minna á dag) sem yfirleitt leiðir til skjóts þyngdarataps. Á næstu stigum er smám saman bætt við kolvetnum. Markmiðið er  að finna það kolvetnamagn sem sem einstaklingurinn getur neytt án þess að hætta að léttast. Ætlunin er þó að þyngdartapið sé hægara en á fyrsta þrepinu.  Þegar einstaklingurinn nálgast það markmið sem hann setti sér í upphafi varðandi líkamsþyngd heldur hann sig við það kolvetnamagn sem dugar til að að halda stöðugri líkamsþyngd.

 

Robert Atkins

Atkins mataræðið var fyrst kynnt til sögunnar árið 1972 þegar fyrsta útgáfa bókarinnar “Dr Atkins’ Diet Revolution” kom út.  Bókin var skrifuð af Robert Atkins sem var bandarískur hjartalæknir sem fæddist í Columbus, Ohio árið 1930. Atkins hafði mikinn áhuga á mataræði og leiðum til þess að draga úr offitu. Hann byggði aðferðir sínar upphaflega á rannsóknum annars bandarísks læknis, Dr. Edgar S Gordon, sem starfaði í Madison, Wisconsin.  Þann 5. október 1963 birtist eftir Gordon og félaga hans grein í JAMA (Journal of the American Medical Association) sem hét “A New Conecpt in the Treatment of Obesity”.  Rannsóknir Gordons og félaga vöktu áhuga Atkins og hann hóf í kjölfarið sjálfur að þróa mataræði sem hann taldi geta orðið vopn í baráttunni við offitu sem hann sá sem vaxandi heilsufarsvandamál.

Aðferðir Dr. Atkins, sem byggðu aðallega á að draga úr kolvetnaneyslu og auka neyslu á fitu, mættu fljótlega mikilli gagnrýni meðal næringarfræðinga og lækna.  Ástæðan var sú að þær voru algerlega á skjön við hefðbundnar ráðleggingar fagfólks um mataræði á þessum tíma.  Árið 1972, þegar Atkins gaf út fyrstu bók sína, töldu flestir að áhrifaríkasta leiðin til að draga úr offitu og tíðni hjarta-og æðasjúkdóma í samfélaginu væri mataræði sem innihéldi hlutfallslega lítið af fitu og mikið af kolvetnum. Kenningar og aðferðir Atkins voru því alls ekki í takt við skoðanir margra virtra samtímamanna hans.

Insulin

Atkins var fyrstur manna til að vekja athygli á mikilvægi insulins hjá einstaklingum með offitu. Þekkt er að insulin gegnir lykilhlutverki í sykurstjórnun líkamans og flestir sem glíma við sykursýki þekkja hlutverk insulins fyrir mannslíkamann. Margar vísindarannsóknir síðustu ára benda til þess að insulin gegni mikilvægu hlutverki í tilurð hjarta-og æðasjúkdóma, háþrýstings og öldrun. 

Atkins benti á að insulin hvetur líkamann til þess að geyma orku í formi fitu. Framleiðsla líkamans á insulini eykst við neyslu á ákveðnum fæðutegundum. Neysla á sykri og kolvetnum örvar insulinframleiðslu mest. Atkins taldi að einstaklingar væru misnæmir fyrir áhrifum insulins.  Þannig framleiddu sumir einstaklingar meira insulin en aðrir við neyslu á sömu fæðu.  Þessum einstaklingum taldi hann hættara við offitu en öðrum.

 

Ketosis

Atkins vakti athygli á fyrirbærinu “ketosis”. Ketosis er ástand sem skapast í líkamanum þegar hann þarf að nýta sér fitu til brennslu en þetta gerist þegar frumurnar hafa ekki aðgang að kolvetnum. Atkins taldi “ketosis” jákvætt fyrirbæri og óyggjandi merki um að líkaminn væri að nota fitu sem eldsneyti og væri þar með að brjóta niður uppsafnaðar fitubirgðir líkamans. Margir samtímamenn Atkins töldu ketosis hins vegar óæskilegt ástand og jafnvel hættulegt sem bæri að forðast.

Þegar kolvetnaneysla er lítil og líkaminn hefur tæmt sykurbirgðir sínar, sem eru geymdar í formi glycogens, neyðist líkaminn til þess að seilast í fituforðann til að fá eldsneyti.  Niðurbrot fitu leiðir til myndunar á “ketonum” sem flestir vefir, þ.m.t. heilinn og hjartað, geta nýtt sér til brennslu í stað kolvetna.  Við þetta minnkar fituforði líkamans og einstaklingurinn léttist.

Atkins taldi að minnkuð neysla kolvetna hefði tvíþætt áhrif til að minnka fitubirgðir líkamans. Í fyrsta lagi minnkar insulinframleiðslan þegar  kolvetnaneysla minnkar. Þetta dregur úr tilhneigingu líkamans til að geyma orku í formi fitu. Í öðru lagi leiðir minnkð framboð á kolvetnum til þessa að líkaminn þarf að brjóta niður fitu til þess að geta notað keton sem eldsneyti. Fita í fæðunni hefur ekki áhrif á framleiðslu insulins. Atkins færði rök fyrir því að aukið fitumagn í fæðu myndi ekki leiða til uppsöfnunar á  fitu í líkamanum því insulinframleiðslan væri of lítil til að drífa slíkt ferli áfram. Hann taldi því að við þessar aðstæður myndi aukin neysla hitaeininga í formi fitu ekki leiða til þyngdaraukningar svo lengi sem kolvetnaneyslu væri haldið í lágmarki. 

 

Þrepin fjögur

Fyrsta þrep (induction) Atkins mataræðisins er einfalt. Hitaeiningar eru ekki taldar. Eggjahvíta er ekki talin. Fituneysla er ótakmörkuð en transfitur eru óæskilegar. Kolvetni eru talin og eiga að vera í algeru lágmarki, hámark 20 g á dag. Sterkja, kornmeti, sykur, ávextir og áfengi er bannað. Ekki var mælt með kaffi því það getur lækkað blóðsykur og ýtt undir þrá eftir sykri. Nýleg útgáfa Atkins mataræðisins, "The new Atkins" leyfir hins vegar hóflega kaffidrykku m.a vegna þess að hún er talin hvetja til brennslu á fitu.

Flestir sem reynt hafa vita að þyngdartap er mikið og hratt í fyrsta þrepi Atkins mataræðisins. Að miklu leyti skýrist þyngdartapið af auknum útskilnaði á salti og vatni sem líklega má rekja til þess að minnkuð insulinframleiðsla leiðir til þess að nýrun fá ekki lengur skilaboð um að halda söltum í líkamanum.

Mælt er með því að tiltölulega fljótlega væri farið yfir á annað þrep þótt hann teldi óhætt að fyrsta þrepið stæði í allt að mánuð. Annað stigið kallar hann “ongoing weight loss” (OWL). Þar er talið mikilvægt að skilgreina “Critical Carbohydrate Level for Loosing” (CCLL). Þetta byggist á að bæta hægt og rólega kolvetnum við fyrsta stigið, viku í senn. Þannig er bætt við 5 g af kolvetnum daglega fyrstu vikuna þannig að dagleg neysla fari ekki yfir 25 g. Ef einstaklingurinn heldur áfram að léttast þrátt fyrir þetta er óhætt að fara upp í 30 g daglega í viku og síðan koll af kolli. Þessu er haldið áfram þar til þyngdartap hættir, þá er bakkað og farið yfir í það kolvetnamagn sem einstaklingurinn neytti síðustu vikuna sem hann hélt áfram að léttast, þetta kolvetnamagn er kallað CCLL. Neysla á fitu og eggjahvítu er áfram frjáls.

Þegar það vantar 3-4 kg á að markmiði hvað varðar þyngdartap sé náð, er farið yfir á þriðja þrep (Premaintenance). Þá er kolvetnaneysla aukin um 10 g á dag, viku í senn. Enn er verið að reyna að finna hámarkskolvetnamagn sem dugar til að einstaklingurinn haldi áfram að léttast en mun hægar en áður. Atkins lagði áherslu á að mikilvægt væri að hægja verulega á þyngdartapinu á þessu stigi. Þannig ætti þyngartap ekki að vera meira en 250-300 g á viku í 2-3 mánuði. Á þessum tíma er einstaklingurinn að venja sig við nýtt mataræði og undirbúa sig fyrir fjórða þrepið (Lifetime maintenance) þar sem hann neytir þess kolvetnamagns sem gerir honum klieft að halda stöðugri þyngd. Þetta magn er einstaklingsbundið og getur verið á bilinu 25-90 g af kolvetnum á dag, jafnvel hærra hjá einstaklingum sem hreyfa sig mjög mikið.

 

Gagrýnendur Atkins 

Þegar aðferðir Atkins hafa verið til umfjöllunar, ekki síst þegar þær hafa verið gagnrýndar, er oft einblínt á fyrsta stigið sem einkennist af mjög lítilli kolvetnaneyslu og mikilli neyslu á fitu og eggjahvítu. Á fyrsta stiginu má alls ekki borða hrísgrjón, kartöflur, morgunkorn, sterkju, pasta, brauð, ávexti eða mjölkurvörur aðrar en osta, rjóma og smjör. Á síðari stigum ferlisins er kolvetnaneysla hins vegar aukin og mataræðið sniðið að þörfum einstaklingsins.

Aðferðir Atkins og ráðleggingar hans hafa löngum verið gagnrýndar af fræðimönnum. Á þeim tíma sem hann kom fram með sínar kenningar og enn þann dag í dag hafa opinberar ráðleggingar fagaðila um mataræði yfirleitt lagt áherslu á að draga úr neyslu mettaðrar fitu og hvetja til neyslu umtalsverðs magns kolvetna. Margir fræðimenn töldu því Atkins á villigötum og hefur skort mikið á að kenningar hans hafi verið studdar af læknum og næringarfræðingum samtímans. Physicians Committee for Responsible Medicine sem eru virt samtök lækna í Bandaríkjunum hafa varað við ýmsum áherslum Atkins mataræðisins og sérstaklega bent á að hlutfall eggjahvítu sé of hátt og að mataræðið hvetji til of mikillar neyslu á kólesteróli og mettaðri fitu. 

Margar vísindarannsóknir hafa á síðustu árum hins vegar leitt í ljós að mataræði sem inniheldur lítið magn af kolvetnum getur hentað vel fyrir einstaklinga sem glíma við offitu.  Virtar háskólastofnanir í Bandaríkunum, eins og Mayo Clinc, líta í dag á lágkolvetnamataræði sem eitt af nokkrum mikilvægum verkfærum í baráttunni við offitu. Rannsóknir benda til þess að lágkolvetnamataræði geti haft jákvæð áhrif á sykursýki, aukið hlutfall HDL-kólesteróls ("góða kólesteróllð") og lækkað magn þríglýseriða sem eru einn af áhættuþáttum hjarta-og æðasjúkdóma. 

Margir telja að ofuráhersla opinberra ráðgefandi aðila á að draga úr fituneyslu, sérsatklega neyslu á mettaðri fitu og kólesteróli, á sama tíma og hvatt er til hlutfallslega mikillar kolvetnaneyslu, hafi orðið til þess að kolvetnaneysla hefur aukist úr hófi. Þetta kann að vera meginástæða þess gríðarlega offitufaraldurs sem hefur riðið yfir vesturlönd á undanförnum arum. 

Kenningar Atkins og áherslur á litla kolvetnaneyslu hafa notið vaxandi stuðnings meðal fræðimanna undanfarin ár. Þá hafa margir bent á að neysla á fitu, jafnvel mettaðri fitu, sé alls ekki eins hættuleg og látið hefur verið í veðri vaka. Árið 2010 birtist í The American Journal of Clinical Nutrition samantekt á öllum rannsóknum sem skoðað hafa samband neyslu á mettaðri fitu og hættunnar á hjarta-og æðasjúkdómum. Rannsóknin bendir til þess  að ekki sé ástæða til að ætla að neysla á mettaðri fitu auki hættuna á hjarta-og æðsjúkdómum. Margir sérfræðingar hafa bent á að mettuð fita geti verið óæskileg ef neysla kolvetna er mikil. Hins vegar sé ekkert sem bendi til þess að aukin neysla mettaðrar fitu sé hættuleg ef á sama tíma er dregið úr neyslu kolvetna.



Meginheimildir:

Bowden J. Living Low Carb. Sterling Publishing Company 2010.

Westman E, Phinney S, Volek J. The NewAtkins for the New You. Fireside. A Division of Simon & Schuster, Inc. Atkins Nutritionals, Inc.

Atkins diet - homepage



© Axel F Sigurdsson 2012