Veistu hvers vegna blóðfitan þín skiptir máli? Margar rannsóknir benda til þess að magn fitu í blóðinu tengist hættunni á að fá hjarta-og æðasjúkdóma. Sérstaklega hefur kólesterólið verið talið skaðvaldur í þessu samhengi. Þetta kann að virðast undarlegt því kólesteról er líkamanum nauðsynlegt og við getum ekki lifað án þess. Enn vantar því nokkuð upp á þekkingu okkar og skilning á hlutverki kólesteróls í tilurð hjarta-og æðasjúkdóma. Hins vegar er mikilvægt fyrir þig að vita blóðfitugildi þín, hvort þau eru ásættanleg eða hvort þú þarft að grípa til sérstakra ráðstafana til að draga úr hættunni á hjarta- og æðaáföllum.
Fylgni milli hjarta-og æðasjúkdóma og hárrar blóðfitu þarf ekki að þýða að fitan sé orsakaþáttur. Margir sérfræðingar hafa reyndar nýverið dregið í efa að svo sé. Hins vegar er vitað að blóðfitulækkandi lyf bæta horfur sjúklinga með hjarta-og æðasjúkdóma. Þetta gæti bent til þess að kólesterólið sjálft sé orsakaþáttur í sjúkdómsferlinu. Hins vegar hafa blóðfitulækkandi lyf ýmis önnur áhrif sem gætu dregið úr framgangi hjarta-og æðasjúkdóma, m.a. bólgueyðandi áhrif. Nýlegar rannsóknir benda til þess að bólga gegni mikilvægu hlutveri í tilurð þessarra sjúkdóma.
Viðmiðunargildi fyrir blóðfitur
Eftirtalin viðmiðunargildi eru fyrir heilbrigða einstaklinga sem ekki hafa greinst með hjarta-eða æðasjúkdóm:
- Heildarkólesteról á ekki að vera hærra en 5.0 mmol/L
- LDL - kólesteról á ekki að vera hærra en 3.0 mmol/L
- HDL - kólesteról á ekki að vera lægra en 1.55 mmol/L
- Þrígýseríðar eiga ekki að vera hærri en 1.7 mmol/L
Fyrir einstaklinga sem hafa greinst með hjarta-eða æðasjúkdóm gilda eftirtalin viðmiðunargildi:
- Heildarkólesteról á ekki að vera hærra en 4.0 mmol/L
- LDL - kólesteról á ekki að vera hærrra en 2.0 mmol/L
Hvað er kólesteról? Kólesteról er efni sem er líkamanum nauðsynlegt. Við þurfum kólesteról í frumuhimnur og það gegnir t.d. sérstaklega mikilvægu hlutverki fyrir taugafrumur. Líkaminn þarf kólesteról við framleiðslu ýmissa hormóna eins og t.d. testosterons og estrogens. Þrátt fyrir þetta hafa faraldsfræðilegar rannsóknir sýnt að hátt kólesteról er áhættuþáttur fyrir hjarta-og æðasjúkdómum. Því hærra sem kólesterólið er, því meiri hætta er á kransæðastíflu og heilablóðfalli. Hins vegar ber að hafa í huga að margir sem fá kransæðastíflu eru ekki með hátt kólesteról. Það er því enn margt óljóst um samband blóðfitu og hjarta-og æðasjúkdóma.
Lifrin framleiðir mest af því kólesteróli sem líkaminn þarf. Það er einstaklingsbundið hversu mikil þessi framleiðsla er. Hátt kólesteról í blóði er oft arfgengt. Yfirleitt er ekki mikið af kólesteróli í fæðu. Kólesterólið í blóðinu ræðst því yfirleitt ekki af því hvort þú borðar mikið kólesteról. Þrátt fyrir það getur mataræði haft áhrif á blóðfiutna þína. Talið er að neysla á mettaðri/harðri fitu sé líkleg til þess að hækka kólesteról. Því er æskilegt, ef þú vilt lækka kólesterólið, að neyta frekar fjölómettaðra fitusýra eða mjúkrar fitu í stað harðrar fitu.
Eru til margar gerðir af kólesteróli? Þegar blóðfitan þín er rannsökuð eru eftirtaldar mælingar oftast gerðar:
- Heildarkólesteról.
- LDL - kólesteról. Þetta efni er stundum kallað "vonda kólesterólið". Það er vegna þess að fylgni er á milli hás LDL kólesteróls og hættunnar á hjartaáföllum, heilablóðfalli og fleiri sjúkdómum.
- HDL-kólesteról. Þetta efni er stundum kallað "góða kólesterólið" vegna þess að öfug fylgni er á milli HDL - kólesteróls og harta-og æðasjúkdóma. Þetta þýðir að því hærra sem HDL-kólesteról er, því minni er hættan á hjarta - og æðsjúkdómum.
- Þríglýseriðar. Þessi fita er annars eðlis en kólesteról. Hátt magn þríglýseríða í blóði er talið auka líkurnar á hjarta-og æðasjúkdómum.
Hvaða blóðfitugildi eru æskileg? Eftirtalin viðmiðunargildi eru fyrir heilbrigða einstaklinga sem ekki hafa greinst með hjarta-eða æðasjúkdóm (viðmiðin eru fengin frá National Institute for Health and Clinical Excellence (NICE) and Department of Health cholesterol guidelines)
- Heildarkólesteról á ekki að vera hærra en 5.0 mmol/L
- LDL - kólesteról á ekki að vera hærra en 3.0 mmol/L
- HDL - kólesteról á ekki að vera lægra en 1.55 mmol/L
- Þríglýseríðar eiga ekki að vera hærri en 1.7 mmol/L
Fyrir einstaklinga sem hafa greinst með hjarta-eða æðasjúkdóm gilda eftirtalin viðmiðunargildi fyrir heildarkólesteról og LDL- kólesteról (viðmiðin eru fengin frá European Society of Cardiology (ESC)
- Heildarkólesteról á ekki að vera hærra en 4.0 mmol/L
- LDL - kólesteról á ekki að vera hærra en 2.0 mmol/L
Hvað geturðu gert til þess að lækka blóðfituna? Hátt kólesteról eitt og sér þarf ekki alltaf að vera áhyggjuefni. Það er aðeins einn af mörgum öðrum áhættuþáttum. Dæmi um aðra áhættuþætti sem auka hættuna á hjarta-og æðasjúkdómum eru:
- Reykingar
- Háþrýstingur
- Karlkyn
- Aldur
- Ættarsaga (foreldri eða systkin með hjarta- eða æðasjúkdóm fyrir 55 ára aldur)
- Sykursýki
- Offita
- Hreyfingarelysi
- Mikil streita
- Mikil áfengisneysla
Ef heildaráhætta þín er mikil, t.d. ef margir áhættuþættir eru til staðar, getur há blóðfita verið áhyggjuefni fyrir þig. Há blóðfita hefur mun minni þýðingu ef aðrir áhættuþættir eru ekki til staðar, þ.e. ef heildaráhætta þín er lítil.
Hvenær er rétt að taka lyf til að lækka blóðfitur? Aðstæður eru mismunandi og því er best að ræða þetta við lækni. Rannsóknir benda til þess að þeir sem hafa greinst með hjarta-eða æðasjúkdóm hafi verulegt gagn af meðferð með blóðfitulækkandi lyfijum (svokölluðum statinlyfjum). Blóðfitulækkandi lyf bæta horfur þessarra sjúklinga og minnka hættuna á nýjum hjarta- og æðaáföllum. Mun óljósara er hvenær á að nota blóðfitulækkandi lyf hjá heilbrigðum einstaklingum sem ekki hafa sögu um hjarta-eða æðasjúkdóm.
Mælt er með blóðfitulækkandi lyfjum í eftirtöldum tilvikum:
- Saga um hjarta-eða æðasjúkdóm (t.d. kransæðaþrængsli, kransæðastíflu eða heilablóðfall)
- Sykursýki
- Sjúkdómur í slagæðum til útlima eða heilaæða.
Hvernig er hægt að lækka blóðfituna án lyfja? Ýmsar leiðir eru til. Þú getur fundið sérstaka umfjöllun um þetta annars staðar á vefsíðunni fljótlega. Helstu leiðir sem mælt er með eru:
- Minnkuð neysla á mettaðri fitu - dýrafitu, smjöri, feitum mjólkurvörum, ostum, brösuðum mat.
- Gagnlegt er að létta sig ef maður er of þungur. Undir þessum kringumstæðum getur verið hjálplegt að minnka kolvetnaneysu.
- Aukin hreyfing
Meginheimild: http://www.uptodate.com