Um mataræði.is

Mataræði.is

Mataræði.is inniheldur efni og umræðu um mataræði, næringu, hreyfingu, heilbrigt líferni og forvarnir gegn sjúkdómum. Markmiðið er að veita greiðan aðgang að vönduðu efni og fróðleik sem byggir á gagnreyndum vísindarannsóknum og ráðleggingum viðurkenndra sérfræðinga.


Vefurinn er í umsjá Axels F. Sigurðssonar hjartalæknis. 

Axel er starfandi hjartalæknir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og í Hjartamiðstöðinni, Holtasmára 1 í Kópavogi. 

Hann er sérfræðingur í lyflækningum og hjartalækningum. Hann lauk embættisprófi frá Læknadeild Háskóla Íslands 1984. Hann stundaði sérfræðinám við Sahlgrenska/Östra háskólasjúkrahúsið í Gautaborg 1988-1995 og við Royal Jubilee Hospital í Victoria BC í Kanada 1995-1996. Axel lauk doktorspófi frá Gautaborgarháskóla 1993. Hann hefur starfað sem sérfræðingur í hjartalækningum við Landspítala Háskólasjúkrahús frá 1996 með megináherslu á kransæðasjúkdóma, kransæðavikkanir og hjartabilun. Hann hefur verið stundakennari við læknadeild Háskóla Íslands frá 1996, við lyfjafræðideild Háskóla Íslands 1996-2002 og við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands frá 2003.  Axel var formaður Hjartasjúkdómafélags íslenskra lækna (Icelandic Cardiac Society) 2004-2006 og í stjórn sama félags 2001-2010. Hann hefur birt rúmlega 100 ágrip og fræðigreinar í innlendum og erlendum vísindaritum og kennslubókum.

IMG 0751

"Ég hef nú starfað sem hjartalæknir í rúm tuttugu ár. Á þessum tíma hef ég upplifað stórstígar framfarir í greiningu og meðferð hjartasjúkdóma á sama tíma og lífsgæði og horfur sjúklinga hafa batnað mikið.  Ég hef líka uppgötvað hversu mikla möguleika við höfum sjálf til að hafa áhrif á heilsu okkar og vellíðan. Með heilbrigðu líferni, hollu mataræði og hreyfingu má bæta líðan og lífsgæði verulega og koma í veg fyrir sjúkdóma. Þetta kann að hljóma einfalt en reynist þó mörgum erfitt. Auk þess liggur ekki alltaf í augum uppi hvaða leiðir á að fara enda getur það verið einstaklingsbundið. Þekking er því nauðsynleg ef þú vilt tileinka þér hollustu og heilbrigðan lífstíl. 

"Ég er ekki fylgismaður eins mataræðis umfram annað. Við erum öll ólík og þurfum því ólíkar áherslur þegar kemur að mataræði. Einstaklingar sem þjást af offitu eða sykursýki geta þurft að velja allt aðrar leiðir en þeir sem eru í eðlilegum holdum en vilja auka heilbrigði sitt með hollu mataræði. Hraustur íþróttamaður kann svo að kjósa enn aðrar áherslur. Ég trúi ekki á "one size fits all" þegar kemur að mataræði."

Ég er læknir og ekki næringarfræðingur. Nálgun mín á efni netsíðunnar helgast af þessu. Umfjöllun mín um næringarfæðileg efni litast því fremur af áhuga mínum á efninu en af sérfræðiþekkingu. Ég er ekki fylgismaður eins mataræðis umfram annað. Við erum öll ólík og þurfum því ólíkar áherslur hvað mataræði varðar. 

Að mínu mati er það hlutverk sérfræðinga að miðla til almennings grunnþekkingu, fróðleik og upplýsingum um tengsl mataræðis og næringar við heilsu og sjúkdóma. Mikilvægt er að upplýsingarnar séu auðskiljanlegar, áreiðanlegar og byggi á öruggum heimildum, viðurkenndum vísindarannsóknum og/eða álitum viðurkenndra sérfræðinga í viðkomandi efni. Þetta var kveikjan að mataræði.is.

Mataræði.is er ætlað að miðla fróðleik um mataræði, heilbrigðan lífsstíl, sjúkdóma og forvarnir. Fyrir þig sem kýst að kynna þér efni síðunnar vil ég taka fram að þar er ekki að finna neinar persónulegar ráðleggingar.. Hver og einn tekur ábyrgð á sínu lífi og ákveður sinn lífsstíl. Markmiðið með Mataræði.is er upplýsingagjöf og fræðsla sem vonandi getur aukið þekkingu þína og hjálpað þér að velja þinar eigin leiðir þegar kemur að mataræði og lífsstíl"



                                                                                                         Janúar 2012

                                                                                                         Axel F. Sigurðsson læknir


© Axel F Sigurdsson 2012