Fá konur verri meðferð við hjartaáfalli en karlar?

3723779 m

Konur eru ólíklegri en karlar á sama aldri til þess að upplifa brjóstverk sem upphafseinkenni hjartaáfalls. Þetta kann að leiða til þess að töf verður á greiningu. Horfur kvenna sem fá hjartaáfall eru almennt verri en karla á sama aldri. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem skoðaði meira en milljón innlagnir vegna hjartaáfalls á spítala í Bandaríkjunum á árabilinu 1994 - 2006. Rannsóknarniðurstöðrnar voru birtar í dag í JAMA (Journal of the American Medical Association) og má nálgast hér.

Um 42% kvennanna lýstu ekki brjóstverk við komu. Færri karlar gáfu ekki sögu um brjóstverk, eða 31%. Þessi munur á einkennum karla og kvenna var mest áberandi í yngri aldurshópunum. Um 15% kvenna með hjartaáfall létust í sjúkrahúslegunni en um 10% karlanna. Rannsakendurnir benda á að erfiðara sé að greina hjartaáfall ef sjúklingurinn er ekki með brjóstverk og því sé líklegra að töf verði á greiningu hjá konum en körlum. Slík töf getur leitt til þess að konur fá viðeigandi meðferð að jafnaði síðar en karlarnir sem getur haft veruleg áhrif á batahorfur. Dæmi um einkenni sem konur sem ekki upplifa brjóstverk fá eru mæði, magnleysi, ógleði, uppköst, verkir í kjálka og á millii herðablaða.  

Þeir einstaklingar sem ekki upplifðu brjóstverk, bæði konur og karlar, komu að meðatali tveimur tímum síðar eftir að einkenni byrjuðu inn á bráðamóttöku en þeir sem fengu brjóstverk. Almennt var hjartalínurit á bráðamóttöku tekið síðar ef einstaklingurinn var ekki með brjóstverk en ef hann var með verk.

Í yngri aldurshópunum fengu karlarnir viðeigandi meðferð til að losa kransæðastífluna að jafnaði fyrr eftir komu á bráðamóttöku en konurnar. Líklegt er að þessi meðferðartöf hafi almennt leitt til stærra hjartavöðvadreps meðal kvennanna en karlanna og skýri hvers vegna þeim farnaðist ver.

Cam Patterson, yfirmaður hjartalækninga á University of North Carolina - Chapel Hill segir: "Okkur hefur mistekist að upplýsa konur um hjartasjúkdóma. Þegar ég spyr konuna mína hvað hún sé hræddust við svarar hún brjóstakrabbamein. Samt eru sex sinnum meiri líkur á að hún deyi úr hjartasjúkdómi. Við eigum mikið verk fyrir höndum að upplýsa um konur og hjartasjúkdóma."

Go Red eru alþjóðleg samtök sem hafa það að markmiði að vekja athygli á hjartasjúkdómum meðal kvenna. Í tilefni Go Red dagsins 19. febrúar s.l. var myndbandið hér að neðan gefið út. 



© Axel F Sigurdsson 2012