Rúmlega fjögur af hverjum tíu krabbameinum má rekja til lífstíls og umhverfisþátta. Hegðunar-mynstur okkar ræður því miklu um hvort við fáum krabbamein eða ekki. Þar ber hæst þætti eins og reykingar, mataræði, líkamsþyngd og vinnuumhverfi. Þetta kemur fram í grein sem birt var nýlega í British Journal of Cancer.
Aðalhöfundur greinarinnar, prófessor Max Parkin sem starfar við Queen Mary Unviersity of London segir: "margir telja að krabbamein skýrist aðallega af erfðum eða öðrum óviðráðanlegum þáttum" og að það sé einungis "tilviljun hver dregur stráið". "Sé litið á öll tiltæk gögn er þó ljóst að rekja má um rúmlega 40% krabbameina til orsakaþátta sem við getum haft veruleg áhrif á."
Við útreikninga sína skoðuðu vísndamennirnir 18 mismunandi krabbamein og 14 lífstíls - eða umhverfisþætti í Bretlandi á árabilinu 1993 - 2007. Reykingar voru langstærsti áhættuþátturinn fyrir krabbameini hjá báðum kynjum
Fyrir karlmenn virðist skipta mestu máli að hætta að reykja, borða meira af ávöxtum og grænmeti og draga úr áfengisneyslu. Fyrir konur skiptir mestu máli að hætta reykingum og gæta að líkamsþyngdinni.
Prófessor Parkin segir: "Við áttum ekki von á því að neysla á ávöxtum og grænmeti væri svona mikilvægur þáttur í tilurð krabbameina hjá karlmönnum. Það kom okkur einnig á óvart að of mikil líkamsþyngd væri eins sterkur áhættuþáttur hjá konum og raun bar vitni."
Talið er að rekja megi 134 þúsund krabbameinstilvika í Bretlandi á ári til lífstíls-og umhverisþátta. Stærsta hlutann, um 100 þúsund tilvik má rekja til reykinga, mataræðis, áfengisdrykkju og of mikillar líkamsþyngdar. Eitt af hverjum 25 krabbameinstilvikum má rekja vinnuumhverfis og þátta eins og eitrana eða efnamengunar, snerting við asbest er dæmi um slíkt. Þá hefur reyndar verið vitað lengi að reykingar eru meginorsök lungnakrabbameins.
Ýmislegt annað kom vísindamönnunum þó meira á óvart. T.d. tengdist 10% af hættunni á brjóstakrabbameini of hárri líkamsþyngd. Þannig var líkamsþyngdin mun sterkari áhættuþáttur en áfengi eða hvort og hversu mikið konan hefði stundað brjóstagjöf.
Hvað vélindakrabbamein varðar töldu greinarhöfundarnir helming áhættunnar tengjast of lítill neyslu á ávöxtum og grænmeti, fimmtungur var rakinn til áfengisneyslu. Magakrabbeimein var í fimmtungi tilvika talið tengjast of mikilli saltneyslu. Meiri hluta krabbameina í munnholi og hálsi má rekja til hegðunar og lífstíls en mjög lítinn hluta sumra annarra krabbameina eins og t.d. krabbameins í gallblöðru.
Ljóst er að margir veikjast af krabbameini án þess að rekja megi það til þátta í umhverfi okkar, lífstíl eða hegðunarmynstri. í mörgum tilvikum er um að ræða erfðir eða aðra orsakaþætti sem við þekkjum ekki eða ráðum ekki við. Hins vegar er ljóst að breytingar á lífstíl og umhverfisþáttum geta fækkað krabbameinstilvikum umtalsvert.
Heimildir
DM Parkin, L Boyd, LC Walker. The fraction of cancer attributable to lifestyle and environmental factors in the UK in 2010. British Journal of Cancer (2011) 105, S77 – S81.