Líkamsþyngd og meðganga


4346954 mHugtakið "circulus vitiosus" er stundum notað til að útskýra undirliggjandi orsakir ýmissa læknisfræðilegra vandamála og sjúkdóma. Á íslensku er orðið "vítahringur" talið lýsa þessu fyrirbæri best. Það sem einkennir "circulus vitiosus" er að um er að ræða hringrás sem viðheldur sjálfri sér. Tökum dæmi. Offita móður á meðgöngu eykur líkurnar á að barnið hennar muni þjást af offitu. Offita á barnsaldri eykur verulega hættuna á offitu á fullorðinsárum. Offita fullorðinnar, verðandi móður eykur hættuna á að barnið hennar muni þjást af offitu. Circulus vitiosus. 

Offita er vaxandi vandamál meðal kvenna á barneignaraldri. Í Bretlandi er helmingur þessarra kvenna með ofþyngd eða offitu. Með ofþyngd er átt við líkamsþyngdarstuðul á bilinu 25.0 - 29.9 en með offitu er átt við líkamsþyngdarstuðul yfir 30.0. Á timabilinu 1997 til 2008 jókst tíðni offitu meðal kvenna á barneignaraldri (16 - 44 ára) í Bretlandi úr 14.2 prósent í 20.2 prósent.  

Annað vandamál meðal barnshafandi kvenna er of mikil þyngdaraukning meðan á meðgöngu stendur. Í Evrópu og Bandaríkjunum er áætlað að 20 - 40% kvenna þyngist of mikið í meðgöngu. Mörgum konum sem þyngjast of mikið í meðgöngu gengur illa að ná fyrri líkamsþyngd að lokinni fæðingu.

Há líkamsþyngd verðandi móður eða mikil þyngdaraukning í meðgöngu eykur tíðni meðgönguvandamála. Meiri hætta er á meðgöngusykursýki ef barnshafandi konur eru of þungar. Með aukinni líkamsþyngd móður aukast líkurnar á að beita þurfi keisaraskurði, nota þurfi áhöld til hjálpar við fæðingu auk þess sem meiri líkur eru á að barnið þurfi að leggjast á nýburagjörgæsludeild að fæðingu lokinni. Ofþyngd eða offita hjá móður eykur verulega hættuna á að barnið verði of feitt.  Offita í bernsku felur í sér auknar líkur á offitu á fullorðinsárum. Robert H. Lustig læknir við Háskólann í Kaliforníu tekur þetta vandamál sérstaklega fyrir í nýjasta myndbandi sínu,"extra large kynslóðin", sem  gefið var út fyrir nokkrum dögum og er sannarlega vert að skoða.

Offita í barnæsku eykur umtalsvert líkurnar á offitu á fullorðinsárum. 

6965372 m

Árið 2010 var birt í Læknablaðinu íslensk rannsókn á áhrifum þyngdar verðandi mæðra á meðgönguna sjálfa, fæðinguna og ástand nýburans. Meginályktun höfunda var eftirfarandi: "Offita hefur óæskileg áhrif á heilsufar verðandi mæðra og barna þeirra. Áhrifin koma fram á meðgöngu, í fæðingu og hjá börnum þeirra. Mikilvægt er að konur á barneignaraldri fái upplýsingar um hvaða áhrif offita hefur á meðgöngu, fæðingu og nýbura." 

Jafnframt segir í umfjöllun höfunda um rannsóknarniðurstöðurnar: "Gefa þarf leiðbeiningar um æskilegt mataræði og hreyfingu og vísa einstaklingum áfram til annarra fagaðila ef þurfa þykir til að ná þyngd niður. Eftir að kona verður þunguð þarf að gefa henni leiðbeiningar um hver sé æskileg þyngdaraukning á meðgöngu og upplýsa hana um algenga fylgikvilla offitu á meðgöngu."

Skort hefur læknisfræðilegar rannsóknir um meðferð offitu og of mikillar þyngdaraukningar á meðgöngu. Ráðleggingar til barnsahafandi kvenna um þetta efni eru nokkuð því mismundandi eftir löndum. Óvíst er hvaða leiðir eru skynsamlegastar fyrir konur sem glíma við þessi vandamál og margir sérfræðingar hafa viljað fara varlega í að ráðleggja megrun á meðgöngu af ótta við að slíkt geti haft áhrif á vöxt fóstursins.

í nýjasta tölublaði British Medical Journal birtist grein sem fjallar um árangur ýmissa aðferða til að draga úr óæskilegum afleiðingum offitu meðal verðandi mæðra. Höfundarnir tóku saman allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum lífsstílsbreytinga á meðgöngu og gerðu svokallaða meta-greiningu (meta-analysis). Sérstaklega voru rannsókuð inngrip sem fólu í sér breytingar á mataraæði, aukna hreyfingu, eða báða þessa þætti. Breytingar á mataræði fólu í flestum tilvikum í sér fækkun hitaeininga, en hefðbundinni hlutfallsskiptingu milli orkugjafa var haldið, þ.e. 50-55 prósent kolvetni, 15-20 prósent prótín og að hámarki 30 prósent fita. 

Inngrip sem fólu í sér breytt mataræðu eingöngu virtust skila mestum árangri til að draga úr líkamsþyngd verðandi mæðra. Inngripin höfðu hins vegar ekki marktæk áhrif á þyngd nýburans. Breytingar á mataræði skiluðu sér einnig í lægri tíðni meðgöngueitrunar, meðgönguháþrýstings og meðgöngusýkursýki. Niðurstöðurnar benda ekki til þess að breytingar á mataræði, í því skyni að draga úr líkamsþyngd eða þyngdaraukningu á meðgöngu, séu skaðlegar fyrir verðandi mæður eða fóstur. Sama gildir um aukna líkamshreyfingu á meðgöngu. Meginályktun vísindamannanna er að breytingar á mataræði og lífsstíl verðandi móður geta dregið úr þyngdaraukningu og tíðni fylgikvilla á meðgöngu án þess að hafa neikvæð áhrif á fóstrið.

Flestir sérfræðingar eru sammála um að forvarnir séu lykilatriði í þessu efni. Hins vegar er spurningin hvar forvarnirnar eiga að byrja. Eiga þær að byrja í meðgöngunni, hjá hinu nýfædda barni eða hjá ungum konum áður en þær verða barnshafandi? Sennilega þarf að beita forvörnum á öllum þessum vígstöðvum samtímis ef árangur á að nást.

Heilsa ungra verðandi mæðra, líkamsástand og holdafar getur því haft mikil áhrif á heilsufar komandi kynslóða. Þótt hægt sé að grípa til aðgerða á meðgöngunni sjálfri er líklega mun áhrifameira gera það áður en konan verður banshafandi. Fræða þarf ungar stúlkur og verðandi mæður um mataræði og heilbrigðan lífsstíl. Áhrifamest er að byrja strax í bernsku. Kenna þarf börnum á einfaldan hátt grunnatriði næringarfræðinnar. Þau þurfa að læra að velja og þekkja það sem er hollt. Kennum börnunum að þekkja mismunandi tegundir grænmetis og ávaxta, kennum þeim að skoða þessar vörur og meta ferskleika þeirra. Kennum þeim að þekkja gott hráefni og eiginleika þess. Kennum þeim um óhollustu skyndibitans, unninna kolvetna, sykraðra drykkja, sælgætis og snakks af ýmsu tagi. 

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft

1849019 m

Þá er komið að körlunum, hlutverki þeirra og ábyrgð. Reynslan hefur reyndar kennt mér að konur hafa yfirleitt meiri áhuga á mataræði en karlar. Á einhvern hátt virðist konum frekar í blóð borinn skilningur á því að það sem við látum ofan í okkur mótar heilsu okkar. Karlmenn, aftur á móti, hegða sér oft á tíðum eins og þeir hafi ekki hugmynd um að það sem þeir láta ofan í sig geti haft einhver áhrif á líkamsástandið. Þeim myndi aldrei detta í hug að mata bílinn sinn á sambærilegu eldsneyti og þeir láta ofan í sig sjálfir.  Ábyrgð karlanna er hins vegar ekki minni en kvennanna. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. 

Það getur verið býsna erfitt að breyta hegðunamynstri sem fest hefur rætur í samfélaginu. Þetta á ekki síst við þegar kemur að mataræði og matarmenningu. Það fékk Jamie Oliver sannarlega að reyna í krossferð sinni til Huntington, West Virginia, í Bandaríkjunum. Hér er samantekt á þessu skemmtilega myndefni ef einhver skyldi ekki hafa séð það.




© Axel F Sigurdsson 2012