Á mánudögum og fimmtudögum borðar Michael Mosley morgunverð sem samanstendur af tveimur eggjum og skinkubita. Það sem eftir er dags drekkur hann mikið vatn, te og svart kaffi. Hann borðar ekkert í hádeginu. Um kvöldmatarleitið fær hann sér vænan skammt af grænmeti og smásneið af laxi. Meira lætur hann ekki ofan í sig þessa tvö daga vikunnar. Þetta kallar hann að fasta.
Þá tvo daga vikunnar sem Mosley fastar borðar hann 500 - 600 hitaeiningar sem er um fjórðungur þess sem hann borðar aðra daga. Hina daga vikunnar borðar hann nokkurn veginn það sem honum sýnist. Þetta hefur verið kallað 5:2 aðferðin. Aðferðarfræðin byggir á því að fasta með hléum ("intermittent fasting"). Markmiðið er að léttast og bæta heilsuna.
Nýlega gaf Mosley út bók um þetta efni ásamt fréttakonunni og rithöfundinum Mimi Spencer. Bókin ber heitið "The fast diet". Undirtitillin er "Lose weight, stay healthy, live longer". Mosley er læknismenntaður en hefur lengst af starfað sem blaðamaður. Hann er þekktur fyrir þætti sem hann hefur stýrt á BBC og bera heitið "Inside the Human Body". Kenningar Mosleys hafa vakið mikla athygli og nýtur 5:2 aðferðin mikilla vinsælda í Bretlandi í dag.
Mosley segir að 5:2 aðferðarfræðin hafi verið rannsökuð mikið síðustu 20 árin af virtum fræðimönnum. Ástæða þess að fólk léttist á þessu mataræði er einföld að sögn Mosleys. Maður borðar einfaldlega minna af hitaeiningum þegar á heildina er litið. Mosley telur að mannslíkaminn þoli vel föstu enda hafi maðurinn lengst af sinni þróunarsögu ekki borðað fjórum sinnum á dag, heldur í törnum. Þannig hafi hann borðað mikið þegar framboð á fæðu var gott og mun minna þess á milli.
Mosley bendir á að 5:2 aðferðin sé aðallega ætluð þeim sem vilja eða þurfa að léttast. Hann bendir á að þessi aðferð sé alls ekki fyrir fólk með sykursýki af tegund 1, ekki fyrir börn, ekki fyrir barnshafandi konur né þá sem eru eru grannir fyrir. Nokkuð ljóst er að flestir léttast þegar 5:2 aðferðin er notuð. Í fyrstu má aðallega rekja þyngdartapið til vökvataps. Mosley telur þó að flestir sem fasta með hléum losni við um háft kíló af fitu á viku. Ekki er alveg eins ljóst hvaða áhrif aðferðin hefur á heilsu fólks að öðru leyti.
Niðurstöður nýlegrar rannsóknar sem Mosley og samstarfsmenn hans hafa gert verða birtar fljótlega í tímaritinu "British Journal of Diabetes and Vascular Disease". Þar kemur fram að 5:2 aðferðin dregur úr bólgusvörun, lækkar blóðsykur og hefur jákvæð áhrif á blóðfitur og blóðþrýsting.
Nú hafa breskir sérfræðingar lýst yfir áhyggjum sínum af vinsældum 5:2 aðferðarinnar. Þeir hafa bent á að um sé að ræða tískufyrirbæri og að ekki sé vitað hvaða áhrif þessi aðferð hefur á heilsuna til lengri tíma. Þeir benda á að það skorti vísindarannsóknir sem sanni að þetta mataræði sé í lagi. Hætta sé á því að fólk borði allt of mikið þá daga sem það fastar ekki og þar með sé þetta gagnslaust. Fylgismenn 5:2 aðferðarinnar taka undir með að mikilvægt sé að missa ekki alveg stjórn á mataræðinu þá daga sem ekki er fastað.
Tíminn mun væntanlega leiða í ljós hvort 5:2 aðferðin er tískubóla eða gagnlegt verkfæri sem getur hjálpað fólki að léttast og bæta heilsuna. Ekki er ólílklegt að einhverjir Íslendingar muni falla fyrir þessarri aðferðarfræði líkt og nágrannar okkar á Bretlandseyjum.