Út að ganga!

9197661 m

Margir hafa litla trú á göngutúrum. Í þeim felast ekki mikil líkamleg átök og þeir eru því oft ekki flokkaðir sem líkamsrækt. Nýleg rannsókn hefur hins vegar sýnt að kukkutíma göngutúr á dag dregur marktækt úr líkunum á offitu hjá einstaklingum með ættarsögu um þetta vandamál. Hins vegar virðist líferni sem felur í sér mikla kyrrsetu og sjónvarpsáhorf í meira en fjóra klukkutíma á dag auka hættuna á offitu um 50 prósent. Þessar rannsóknarniðurstöður voru kynntar á fundi American Heart Association í San Diego í síðustu viku. 

Rannsóknin náði til rúmlega 12 þúsund karla og kvenna sem tóku þátt í tveimur stórum faraldsfræðilegum rannsóknum; Nurses Health Study og Health Professionals Follow-up Study. Offita var skilgreind sem líkamsþyngdarstuðull yfir 30. Sjónvarpsáhorf var talið endurspegla kyrrsetu. Greinileg fylgni var á milli sjónvarpsáhorfs og offitu. Hins vegar fór tíðni offitu lækkandi eftir því sem göngutúrar voru algengari og lengri. Fram kom að meðalsjónvarpsáhorf Bandaríkjamanns er 4-6 klukkutímar á dag. 

Þú getur lesið þig til um rannsóknina hér: "Walking may halve genetic influence on obesity”.


© Axel F Sigurdsson 2012