Sagan af Roseto

15301772 m

Roseto er bær í austurhluta Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Þar settust ítalskir innflytjendur að á síðari hluta nítjándu aldar. Aðstæður gerðu það að verkum að Roseto búar einangruðu sig nokkuð frá nálægum samfélögum þar sem aðallega bjó fólk af engilsaxneskum uppruna. 

Á sjöunda áratug síðustu aldar starfaði í Roseto læknir að nafni Benjamin Falcone. Hann vakti athygli starfsbræðra sinna á því að hann sæi mjög sjaldan tilfelli bráðrar kransæðastíflu meðal Rosetobúa. Þegar þetta var rannsakað nánar kom í ljós að á árabilinu 1955 - 1965 var dánartíðni af völdum hjartaáfalla mun lægri meðal Rosetobúa en í nálægum bæjum svo og í landinu öllu. Þessar rannsóknarniðurstöður vöktu athygli margra sérfræðinga, ekki síst vegna þess að Rosetobúar virtust hafa flesta þá áhættuþætti sem einkenndu Bandaríkjamenn á þessum tíma. Karlmennirnir unnu erfiðisvinnu við námugröft. Rosetobúar reyktu mikið og hefðbundinn ítalskur matur var horfinn af borðum þeirra. Í staðinn neyttu þeir neyttu venjulegrar amerískrar fæðu sem var einkennandi fyrir þennan tíma og var ekki talin fela í sér mikla hollustu. Vísindamenn furðuðu sig þess vegna á því hvers vegna Rosetubúar fengu ekki hjartaáföll í sama mæli og aðrir Bandaríkjamenn. 

Bandaríski læknirinn Stewart Wolf varð fyrstur til að lýsa því sem skildi íbúa Roseto frá öðrum Bandaríkjamönnum. Í upphafi sjötta áratugarins höfðu Rosetobúar fjölskylduna í öndvegi. Fjölskyldan var það sem skipti mestu máli, ekki einstaklingurinn sjálfur. Fjölskyldan kom fram sem ein heild og hagsmunir hennar voru ávallt í fyrirúmi. Það var jafnframt metnaður hverrar fjölskyldu að leggja sem mest af mörkum til samfélagsins. Kröfur samfélagsins beindust því að fjölskyldunni en ekki einstaklingnum.

Á sjötta og sjöunda áratug síðsutu aldar samanstóðu flestar fjölskyldur í Roseto af þremur kynslóðum. Roseto-búum var á þessum tíma lýst sem lífsglöðum, glaðlyndum, gestrisnum og samhentum. Þeir voru ávallt reiðubúnir að fagna í sameiningu áföngum sem voru til þess fallnir að bæta samfélagð og auka velferð íbúanna. Eldri íbúar Roseto voru ekki settir til hliðar eða geymdir á elliheimili. Þeir nutu ekki einungis virðingar fjölskyldunnar og samfélagsins, heldur sátu þeir í svokölluðu æðsta ráði ("supreme court") þar sem lífsreynsla þeirra og viska var nýtt samfélaginu í hag. 

Það var enginn skortur a streitu meðal Roseto-búa. Þeir upplifðu mörg af þeim félagslegu vandamálum sem einkenndu Bandaríkjamenn þessa tíma. Það sem einkenndi þá og aðskildi frá öðrum voru hin sterku fjölskyldubönd og samheldnin. Vísindamenn telja að þetta samfélagsmynstur hafi verndað Rosetobúa frá skaðlegum áhrifum streitu og annarra áhættuþátta hjarta-og æðasjúkdóma. Þetta hefur verið kallað Roseto-fyrirbærið ("The  Rosteo Effect"). 

Rosteto fyrirbærið er áhugavert vegna þess að það kennir okkur hvernig nánasta umhverfi og samfélagslegar áherslur geta haft verndandi áhrif á heilsu okkar. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að allir hinir hefðbundnu streituvaldar samfélagsins voru til staðar meðal Rosetubúa. Hins vegar virðist sem hin sterka áhersla á fjölskylduna sem einingu, en ekki einstaklinginn, hafi verndað íbúanna, ekki síst fyrir skaðlegum áhrifum streitu á hjartað og æðakerfið. Þess vegna hafi tíðni hjarta-og æðasjúkdóma verið mun lægri meðal íbúa Roseto borið saman við aðra Bandaríkjamenn. Ýmsir hafa bent á að nútímasamfélag geri óeðlilega miklar kröfur til okkur sem einstaklinga. Hugsanlega er það manninum eðlilegra og hollara að vera hluti af hóp. Þá leggjast menn á árarnar í sameiningu og styðja þann sem á undir högg að sækja. 

Á næstu áratugum breyttist samfélag og fjölskyldumynstur Roseto-búa. Í dag sker þessi áhugaverði bær sig ekki á neinn sérstakan hátt frá öðrum bandarískum bæjum. Tíðni hjarta-og æðasjúkdóma er í dag sú sama í Roseto og annars staðar í Bandaríkjunum.


© Axel F Sigurdsson 2012