Docosahexaenioc acid (DHA) er omega-3 fitusýra. Þetta efni er mikilvægt fyir heilann og miðtaugakerfið. DHA má finna í ríkulegu magni í silungi, laxi, ýmsu sjávarfangi og mörgum fiskiolíum. Líkaminn getur einnig framleitt DHA úr alfa-linolenic sýru sem er að finna víða í jurta-og dýraríkinu. Rannsóknir hafa bent til þess að DHA geti bætt minni og námshæfileika tilraunadýra, en áhrifin á mannfólkið hafa verið umdeildari. Ein stór rannsókn sýndi engin jákvæð áhrif af DHA á minnisskerðingu og önnur einkenni heilabilunar meðal einstaklinga með Alzheimer sjúkdóm. Svokölluð MIDAS rannsókn sem birt var 2010 benti hins vegar til þess að DHA gæti bætt minni fullorðinna einstaklinga sem höfðu væga aldurstengda minnisskerðingu en engin einkenni heilabilunar. Mun minna hefur til þessa verið vitað um hvort DHA geti haft áhrif á minni yngra fólks.
Nýlega voru niðurstöður þekktrar nýsjálenskrar rannsóknar á áhrifum DHA á minni heilbrigðra ungra einstaklinga birtar í tímaritinu American Journal of Clinical Nutrition. Alls voru rannsakaðir 176 einstaklingar á aldrinum 18-45 ára sem neyttu tiltölulega lítils magns DHA í fæðu. Helmingi þeirra var gefið 1.16 grömm af DHA á dag en hinum helmingnum var gefin lyfleysa (placebo). Rannsóknin var tvíblind, hvorki rannsakendur né þátttakendur vissu hvort þeir fengu DHA eða lyfleysu. Meðferðin stóð í sex mánuði. Sérstök próf voru notuð til að mæla minni einstaklinganna, athygli, viðbragðstíma og hraða hugsanaferlis. Rannsóknin leiddi í ljós að þeir einstaklingar sem fengu DHA bættu frammistöðu sína í flestum minnisprófum marktækt meira en þeir sem fengu lyfleysu. Átti þetta bæði við um karla og konur.
Fyrsti höfundur rannsóknarinnar, Welma Stonehouse hefur bent á að þetta sé fyrsta rannsóknin sem sýni fram á að DHA geti bætt minni hrausts ungs fólks. Hún bendir á að DHA sé ein mikilvægasta fitusýran í miðtaugakerfinu. Þeir þættir minnis sem bötnuðu við inntöku DHA geta haft jákvæð áhrif á getu fólks við ýmsar athafnir daglegs líf svo sem vinnu, akstur, innkaup, nám og íþróttaiðkun. Stonehouse hvetur því fólk til að borða fisk og sjávarfang í ríkum mæli.