Síðustu mánuði hef ég fengið tækifæri til að halda fyrirlestra á nokkrum ráðstefnum og málþingum um tengsl mataræðis og heilsu. Mér til mikillar ánægju hafa þessi mannamót verið afar vel sótt. Þetta endsurspeglar mikinn áhuga fólks á forvörnum og mikilvægi heilbrigðs lífernis til að viðhalda góðri heilsu og draga úr líkum á sjúkdómum.
Eitt atriði sem vakið hefur athygli mína og annarra sem þátt hafa tekið í þessum málþingum er að mikill meiri hluti þátttakenda eru konur. Þetta hefur orðið mörgum okkar umhgsunarefni. Lífsstílssjúkdómar eru ekki algengari meðal kvenna en karla. Forvarnir eru ekki síður mikilvægar fyrir karla en konur.
Hvers vegna gefa karlar sér minni tíma en konur til að auka þekkingu sína á miklilvægi heilbrigðs lífsstíls og mataræðis fyrir líðan og heilsu? Finnst þeim þetta vera hlutir sem konur þurfa bara að vita. Hefur þetta með testósterón að gera? Höfðar mataræði ekki til karlmennskunnar? Vita karlar kannski allt sem þarf að vita? Eða eru þeir kannski bara upp í sófa með pizzu og bjór að horfa á Meistaradeildina í fótbolta?
Hin eina sanna Meistaradeild
Nýlega voru birtar fyrstu niðurstöður umfangsmikillar könnunar Landlæknisembættisins á heilsu og líðan Íslendinga. Niðurstöðurnar voru bornar saman við niðurstöður könnunar sem náði til ársins 2007. Athyglisvert er að bera saman íslenska karla og konur þegar kemur að mataræði. Hvort kynið skyldi hafa vinninginn þegar kemur að hollustunni, hinni einu sönnu Meistaradeild.
Yfirleitt er talið jákvætt fyrir heilsu og holdarfar að borða morgunmat. Myndin hér að neðan sýnir að fleiri konur en karlar borða reglulega morgunmat. Staðan: eitt núll fyrir konum.
Fjölmargar rannsóknir sýna að neysla ávaxta og berja er holl. Myndin hér að neðan sýnir að fleiri konur en karlar borða ávexti eða ber einu sinni á dag eða oftar. Tvö núll fyrir konum.
Neysla skyndibita er almennt talin neikvæð þegar kemur að hollustu. Hér að neðan má sjá að fleiri karlar en konur borða skyndibita einu sinni í viku eða oftar. Þrjú núll fyrir konum.
Fiskneysla telst til hollustu. Á myndinni hér að neðan má sjá að heldur fleiri karlar en konur borða fisk eða fiskrétti tvisvar sinnum í viku eða oftar. Karlarnir fá því loks eitt stig. Þrjú eitt fyrir konunum.
Neysla sykraðra gosdrykkja telst til óhollustu. Nokkuð kemur á óvart á myndinni hér að neðan hversu miklu fleiri karlar en konur neyta slíkra drykkja fjórum sinnum í viku eða oftar. Fjögur eitt fyrir konunum.
Myndin hér að neðan sýnir að fleiri konur en karlar telja sig reyna að borða hollan mat. Leikslok: Fimm eitt fyrir konum.
Ofangreindar niðurstöður benda eindregið til þess að íslenskar konur neyti almennt hollari fæðu en íslenskir karlar. Þessi mikli munur á konum og körlum þegar kemur að mataræði vekur óneitanlega athygli. Eru konur skynsamari en karlar? Hafa konur betri stjórn á mataræði sínu en karlar? Eða eru karlarnir bara uppteknir í örðum pælingum? Ég kann ekki svarið.
Nokkuð ljóst er að konur vinna yfirburða sigur í hinni einu sönnu Meistaradeild, hollustudeildinni. Fimm eitt fyrir konunum er slæm útreið fyrir karlana. Vonandi koma þeir betur undirbúnir til leiks í næstu könnun.