Næringarfræði er fræðigrein innan heilbrigðis-og náttúruvísinda sem fjallar um hlutverk næringarefna fyrir mannslíkamann og tengsl næringar og heilsu.
Fræðigreinin fjallar um næringarþörf mannsins á mismunandi æviskeiðum, hlutverk og jafnvægi hinna ýsmu efna sem gefa frumum líkamans orku og þýðingu vítamína, steinefna og margra annarra efna sem við fáum með fæðunni.
Næringarfræðin fjallar um hollustu hinna ýmsu fæðutegunda, gæði matvæla og hugsanlegar hættur sem stafað geta af efnum í fæðu.
Við lifum á upplýsingaöld. Almenningur hefur í dag mjög greiðan aðgang að upplýsingum og fróðleik um mataræði, hollustu, sjúkdóma og heilsu. Í þessu samhengi ber að hafa í huga tengsl mataræðis og næringar við öflugan matvælaiðnað og lögmál markaðarins. Mikilvæt er að við höfum grunnþekkingu sem gerir okkur kleift að túlka og nýta okkur á réttan hátt það mikla upplýsingaflæði sem er aðgengilegt í dag, sér í lagi á internetinu.
Hér er leitast við að fjalla um nokkur af grundvallarariðum næringarfræðinnar og tengsl þeirra við heilsu og sjúkdóma.