Greinar

D - vítamín og gróðurofnæmi


8922921 m

Þjáist þú af gróðurofnæmi?   Ef svo er kannastu eflaust við yndislega sumardaga sem breyttust í martöð með augnkláða, hnerrum og stöðugu nefrennsli. Við sem þekkjum þetta vandamál gætum freistast til að grípa í hálmstrá ef það býðst.

Á þingi American Academy of Allergy, Asthma and Immunology sam haldið var nýverið var kynnt rannsókn á áhrifum D-vítamíns á nefrennsli, nefstíflur og hnerra hjá einstaklingum sem þjást af árstíðabundnu ofnæmi. Nokkrar rannsóknir sem kynntar voru á þinginu benda reyndar til þess að D-vítamín geti verið hjálplegt fyrir einstaklinga sem þjást af ofnæmi.

Rannsókn sú sem um ræðir var tvíblind slembirannsókn með lyfleysu (double-blind placebo controlled study) hjá 35 einstaklingum á aldrinum 18-45 ára með árstíðabundið ofnæmi. Allir einstaklingarnir höfðu nefeinkenni eins og hnerra, nefrennsli og nefstíflur. Ofnæmispróf hjá öllum þessum einstaklingum höfðu staðfest ofnæmi fyrir trjám eða grasi. Allir notuðu nefúðalyf með sterum, sem er hefðbundin fyrirbyggjandi meðferð fyrir þá sem þjást af gróðurofnæmi. Helmingur einstaklinganna fékk meðferð með 4.000 einingum af D-vítamíni daglega. Mælingar á D-vítamíni í blóði sýndu eðlileg gildi hjá öllum einstaklingunum áður en meðferð hófst sem þýðir að enginn þjáðist af D-vítamín skorti. Meðferðin stóð í tvær vikur.

Ofnæmiseinkenni frá nefi minnkuðu marktækt meira í hópnum sem fékk meðferð með D-vítamíni en í hópnum sem fékk enga slíka meðferð (lyfleysuhópurinn). Munurinn á hópunum var umtalsverður, nánast 50 prósent.

Dr. Fuad Baroody frá Háskólanum í Chicago, sem stýrði rannsókninni, telur þó að túlka verði niðurstöðurnar varlega, ekki síst í ljósi þess hversu lítil rannsóknin var. Hann segir að fleiri rannsóknir þurfi að gera áður en hægt verður að ráðleggja fólki með gróðurofnæmi að taka D-vítamín ásamt nefúðalyfinu.

Hingað til hefur aðallega verið mælt með töku D-vítamíns hér á landi yfir vetrartímann, þegar geisla sólar nýtur við í litlum mæli. Við sem þjáumst af gróðurofnæmi gætum þó hugsanlega freistast til að stelast í D-vítamín staukinn í sumar, þótt læknisfræðin sé enn ekki tilbúin að mæla með því.


Mettuð fita, transfita og sykur

5031643 m

Um áratuga skeið hafa læknar og aðrir sérfræðingar hvatt hjartasjúklinga og alla þá sem vilja draga úr hættunni á hjarta - og æðasjúkdómum til þess að minnka neyslu á mettaðri eða harðri fitu. Stærstur hluti þessarrar fitu kemur úr fituríkum mjólkurafurðum og kjöti. Þessar ráðleggingar hafa byggt á leiðbeinungum opinberra aðila sem hafa það hlutverk að sinna lýðheilsu. Í ráðleggingum Lýðheilsustöðvar sem nú heyrir undir Landlæknisembættið kemur fram að mikil hörð fita sé óæskileg fyrir heilsuna "þar sem hún hækkar LDL - kólesteról (vonda kólesterólið) og eykur þar með líkurnar á hjarta-og æðasjúkdómum". Þetta er í fullu samræmi við það sem erlendar ráðgjafastofnanir hafa ráðlagt og kemur nokkuð skýrt fram í "Dietary Gueidlines for Americans 2010". Hugsanlega hafa þessi einföldu ráð þó ekki borið tilhlýðilegan árangur þegar kemur að því að bæta heilsu Vesturlandabúa og margt bendir til að þau hafi leitt okkur inn á aðrar, síður æskilegri brautir þegar kemur að fæðuvali. 

Áður en lengra er haldið er mög mikilvægt að átta sig á því að gera þarf greinarmun á harðri fitu og hertri fitu (transfitu). Síðarnefnda fitan er í langflestum tilvikum framleiðsluvara sem verður til þegar mjúk fita eða olía er hert að hluta. Í ráðleggingum Lýðheilsustöðvar, sem gefnar voru út árið 2006, í annars ágætum bæklingi, segir orðrétt;  "með harðri fitu er átt við bæði mettaðar fitur og transfitusýrur".  Að setja mettaðar fitur og transfitusýrur í sama flokk er afar villandi. Mettuð, eða hörð fita er yfirleitt af náttúrulegum toga og býsna algeng landbúnaðarafurð. Transfitu er hins vegar helst að finna í unnum matvörum eins og djúpsteiktum mat, sumu smjörlíki, kexi, kökum, snakki og sælgæti af ýmsu tagi, t.d. poppkorni og kartöfluflögum. Mjög margar rannsóknir benda til þess að transfitusýrur geti verið óheilsuamlegar. Í desmber 2010 voru settar hér á landi reglur um hámarksmagn transfitusýra sem leyfilegt er að hafa í matvælum sem seld eru hér á landi. 

Fita í fæði Vesturlandabúa hefur farið minnkandi síðustu áratugi, m.a. hér á Íslandi. Þetta hefur af mörgum verið talið fagnaðarefni. Hins vegar þurfum við að velta fyrir okkur hvað hefur áunnist þegar kemur að heilsunni sjálfri. Vissulega hefur dánartíðni vegna hjarta-og æðasjúkdóma lækkað, en það á sér margþættar skýringar. Á sama tíma hefur neysla sykurs og unninna kolvetna af ýmsu tagi aukist umtalsvert og tíðni offitu og sykursýki á Vesturlöndum hefur vaxið hröðum skrefum. Ljóst er að eitthvað hefur farið úrskeiðis við að koma réttum skilboðum til matvælaframleiðenda og neytenda. Líklegt er að ofuráhersla á neyslu afurða með lágt fituinnihald hafi hvatt framleiðendur til að markaðssetja fitusnauð matvæli sem oft á tíðum innihalda önnur efni sem vafalítið eru ekki heilsusamlegri, svo sem ýmis óholl kolvetni, sykur og sætuefni.

Enn og aftur komum við að því að varasamt kann að vera að gefa út einhæfar ráðleggingar um mataræði sem gilda eiga fyrir alla einstaklinga. Þó bendir reyndar allt til þess að transfitur eigi ekki að vera á neinum borðum. Fyrir einstaklinga sem hafa það eina markmið að lækka LDL - kólesterólið bendir flest til að gagnlegt sé að draga úr neyslu á mettaðri fitu. Fyrir einstaklinga sem eru of þungir, með tilhneigingu til sykursýki, lágt HDL - kólesteról (góða kólesterólið) eða hátt magn þríglíseríða í blóði getur hins vegar verið gagnlegt að draga úr kolvetnaneyslu og auka fituneyslu.

Nágrannar okkar á Norðurlöndum, ekki síst Svíar, eru nú að upplifa talsverða hugarfarsbreytingu þegar kemur að rmataræði. Danir eru reyndar ekki í þessum hópi enda settu þeir nýverið svokallaðan fituskatt á matvæli. Þó er okkuð ljóst að fituneysla er ekki stærsta óvinurinn í mataræði okkar í dag. Þótt nokkrar rannsóknir bendi til þess að neysla fjöl-og einómmettaðra fitusýra sé hollari en neysla mettaðrar fitu, benti nýleg stór samantektarrannsókn til þess að neysla mettaðrar fitu yki ekki hættuna á hjarta-og æðasjúkdómum. Hér á landi þarf að draga úr óhóflegri neyslu sykurs og unninna kolvetna, meðal barna, unglinga svo og fullorðinna. Eyða þarf þeim útbreidda misskilningi að fitur, sérstaklega mettaðar fitur, séu hættulegar.  Það verður ekki fyrr en þessi hugarfarsbreyting hefur orðið sem tíðni offitu og sykursýki mun byrja að lækka hér á landi.


© Axel F Sigurdsson 2012