Greinar
Golf og mataræði
Fátt gleður golfara meira en að skunda á teig á fallegum sumardegi og láta sig dreyma um komandi afrek. En hjá mörgum er gleðin skamvinn, stundum er hún farin eftir fyrsta högg. Í einni svipan víkur fegurð sumarsins og náttúrunnar fyrir neikvæðum hugsunum og svekkelsi. Það getur reynst þrautin þyngri að endurheimta leikgleðina…. golf er ekki einfalt sport.
Þótt hægt sé að stunda golf án þess að vera í mjög góðu líkamlegu formi er nokkuð ljóst að vænta má betri árangurs eftir því sem líkamlegt atgervi er betra. Þol, vöðvastyrkur, liðleiki og jafnvægi eru mikilvægir þættir fyrir golfara. Þótt líkamlega formið skipti miklu máli eru fáar íþróttagreinar sem gera eins miklar kröfur til andlegs og tilfinningalegs jafnvægis og golf. Stór hluti leiksins byggist á því að taka réttar ákvarðanir á réttum tíma. Hvaða kylfu á ég að nota? Hvert á ég að miða? Á ég að reyna við flötina eða leggja upp? Hér er það ekki líkamlega formið sem skiptir sköpum. Svekktur, pirraður, svangur eða þyrstur golfari er líklegur til að taka rangar ákvarðanir.
Mataræði skiptir sköpum fyrir íþróttamenn. Þetta á bæði við um þá sem eru í fremstu röð og þá sem einungis stunda íþróttir sér til ánægju. Það tekur yfirleitt á bilinu fjóra til fimm klukkutíma að leika einn golfhring. Á þessum tíma þarftu að búast vð því að þurfa að ganga níu til tíu kílómetra. Reikna má með að þú brennir allt að fimmtán hundruð til tvö þúsund hitaeiningum á einum golfhring. Rannsóknir hafa sýnt að tvinnumenn í golfi geta brennt allt að þrjú þúsund einingum á hring. Með þessar staðreyndir í huga er nokkuð ljóst að þú þarft að huga sérstaklega vel að tvennu. Þú þarft að sjá líkamanum fyrir orku eða eldsneyti annars vegar og vökva hins vegar. Hversu mikið þú þarft fer m.a. eftir líkamsþyngd þinni, veðri, hitastigi og almennum aðstæðum.
Hefðbundin næringarfræði gengur út frá því að kolvetni gegni lykilhlutverki fyrir mataræði íþróttamanna. Hér er þó ekki átt við einföld kolvetni eða sykur, heldur flókin kolvetni sem hafa lægri sykurstuðul. Tvær nýlegar kennslubækur um íþróttir og næringu, sem gefnar hafa verið út á þessu ári, halda sig við þessar áherslur (Nutrition for Sports and Exercise eftir Marie Dunford og J Andrew Doyle og Advanced Sports Nutrition eftir Dan Bernardot). Þótt æskilegt sé að kolvetni séu meginuppistaða næringarinnar þegar þú leikur golf þarftu einnig að neyta prótína og fitu.
Síðustu misseri hefur nokkuð verið fjallað um að íþróttamenn geti náð árangri á mataræði sem inniheldur lítið af kolvetnum og hlutfallslega mikla fitu. Fylgismenn þessa mataræðis telja að hægt sé að þjálfa líkamann eða kenna honum að nota fitu sem aðaleldsneyti. Þetta aðlögunarferli hefur verið kallað "keto adaptation". Fyrir þá sem vilja kynna sér þetta efni nánar get ég bent á glænýja bók eftir Jeff S. Volek og Stephen D. Phinney, en þeir eru virtir fræðimenn á þessu sviði. Bókin ber heitið The Art and Science of Low Carbohydrate Performance. Hún er í litlu broti, tiltölulega fljótlesin, fróðleg og vel skrifuð.
Ætlir þú þér að ná árangri eða hafa ánægju af golfi skaltu endilega huga vel að mataræðinu. Þegar golfarar hefja leik að morgni dags er algengt að þeir borði morgunverð heima, haldi svo á golfvöllinn og leiki 18 holur, oft án þess að nærast mikið meðan á hringnum stendur. Mögulega fá þeir sér súkkulaðistykki, brauðsneið, gosdrykk eða orkudrykk eftir níu holur. Síðan er oft borðuð orkurík máltið, ekki endilega holl, að leik loknum. Þegar þessi aðferð er notuð er talsverð hætta á því að blóðsykur falli meðan á leik stendur. Slíkt getur truflað einbeitingu, valdið þreytu, hungurtilfinningu og jafnvel höfuðverk.
Svínn Gi Broman hefur rannsakað blóðsykur sérstaklega hjá golfurum meðan á golfhring stendur. Allir leikmenn fengu hefðbundinn morgunmat fyrir leik. Að loknum níu holum fengu þeir stóra samloku og banana, önnur fæða var ekki í boði. Blóðsykur var mældur á þriðju hverri holu. Eftir níu holur hafði blóðsykur lækkað umtalsvert miðað við upphafsgildið áður en lagt var af stað. Á tólftu holu hafði svo blóðsykur hækkað aftur. Þegar komið var á átjándu holu var blóðsykurinn þó orðinn talsvert lægri á ný og umtalsvert lægri en eftir níu holur. Þetta kann að eiga þátt í einbeitingarskorti sem margir golfarar verða varir við á síðustu holum golfhringsins. Ályktun Broman og samstarfsmanna var á þá leið að ráðlegt hefði verið fyrir þessa tilteknu golfara að borða ekki sjaldnar en á klukkutíma fresti til að forðast sveiflur í blóðsykri. Þetta getur hins vegar verið einstaklingsbundið, enda er blóðsykurstjórnun margþætt og flókið fyrirbæri.
Golfdagurinn
Þú skalt ekki borða stóra máltíð síðustu þrjá tímana áður en þú hefur golfleik. Forðastu að borða mjg fituríkan, steiktan eða brasaðan mat fyrir leik, aðallega vegna þess að slíkt er oft þungt í magann.
Til að halda blóðsykri stöðugum er mikilvægt að neyta kolvetna sem ekki valda miklum sveiflum í blóðsykri. Í flestum tilvikum er því óæskilegt að neyta sykurs. Ef þú gerir það er meiri hætta á sveiflum í blóðsykri. Dæmi um æskilega fæðu meðan á golfhring stendur eru samlokur úr grófu brauði með osti eða kjötáleggi af einhverju tagi eins og skinku, kjúkling, kalkún eða túnfisk og ávextir, t.d. epli eða bananar. Hjálplegt getur verið að borða snakk eins og rúsínur, hnetur eða þurrkaða ávexti eins og t.d. aprikósur. Til að bæta upp vökvatap geturðu þurft að drekka einn og hálfan til tvo lítra af vatni á einum átján holu golfhring. Ef mjög heitt er í veðri geturðu þurft að drekka allt að tvöfalt meira til að fullnægja vökvaþörf líkamans. Margir golfarar gera sér ekki grein fyrir þessu og drekka aðeins til að svara þorsta sínum.
Ef þú ætlar að leika golf að morgni dags er mikilvægt að þú borðir haldgóðan morgunverð. Þó er ekki æskilegt að borða stóra máltíð rétt fyrir hring. Erfitt getir verið að vakna þremur tímum fyrir leik til þess að nærast ef þú átt rástíma klukkan átta. Til að fylla á glykogen forðann geturðu borðað kolvetnaríka máltið kvöldið fyrir leik, t.d. pasta með kjötsósu. Í morgunverð gætir þú t.d. borðað hafragraut, gróft brauð með osti, egg, jógúrt eða skyr, gróft morgunkorn og ávöxt.
Ætlir þú að leika golf eftir hádegi er góð hugmynd að borða kjúkling eða fisk í hádegisverð. Forðastu steikt eða brasað. Borðaðu gjarnan ferskt grænmeti, kartöflur, hrísgrjón eða pasta. Með þessu geturðu t.d. borðað tvær hrökkbrauðssneiðar eða fengið þér ávöxt. Þessi matseðill inniheldur 800 - 1000 hitaeiningar og rúmlega 100 grömm af kolvetnum. Ef þú vilt borða minna af kolvetnum geturðu borðað 1-2 egg í staðinn fyrir kartöflurnar, hrísgrjónin eða pastað.
Annar góður kostur í hádeginu væri heilkornapasta með kjötsósu, kjúklingasamloka og súpa, egg eða eggjaka og ristað brauð. Yfirleitt er gott að borða ferskt grænmeti og ávöxt.
Hér er hugmynd að mataræði meðan á golfhring stendur:
3. hola (ca 8:45): einn banani
7. hola (ca 9:45): 250 ml drykkjarjógúrt
9. hola (ca 10:15): 200 ml appelsínusafi og samloka með skinku og osti
13. hola (ca 11:15): Lítill pakki af hnetum og/eða rúsínum eða þurrkaðir ávextir
16. hola (ca 12:00) 250 ml drykkjarjógúrt og eitt epli
Þessi samsetning inniheldur 900 - 1000 hitaeiningar, 180 grömm af kolvetnum, 31 gramm af prótínum og 9 grömm af fitu. Þó fer þetta að sjáfsögðu allt eftir magni.
Gríðarlega mikilvægt er að drekka nóg af vökva þegar þú leikur golf. Ef þú gerir það ekki er það fljótt að hafa áhrif á líkamlegan og andlegan styrk þinn, ekki síst einbeitingu. Vökvaþörfin er einstaklinsgbundin, stór einstaklingur þarf meiri vökva en sá sem er minni. Reyndu að drekka ekki minna en 0.4 - 0.5 lítra á klukkutíma, sem þýðir að einn og hálfur lítri af vökva á átján holu golfhring er lágmark. Ef svalt er í veðri er líklegt að vökvaþörfin sé eitthvað minni. Hins vegar verður vökvaþörfin umtalsvert meiri ef heitt er í veðri, þá geturðu þurft að drekka þrjá lítra eða meira á golfhring ef þú ætlar að bæta þér upp vökvatapið. Reyndu að drekka jafnt og þétt í stað þess að þamba stóra skammta í einu. Best er að drekka vatn. Ef mjög heitt er í veðri þarftu samt að að gæta þess að fá sölt. Sumir orkudrykkir innihalda sölt. Drekktu ekki áfenga drykki. Þeir geta lækkað blóðsykur, hafa slævandi áhrif á miðtaugakerfið, auka þvagútskilnað og þar með hættuna á likamsþurrki.
Íþróttadrykkir eru umdeildir. Kosturinn við þá er að þeir innihalda bæði kolvetni og vökva. Sumir orkudrykkir innihalda einnig sölt sem getur verið gagnlegt, sérstaklega ef heitt er í veðri. Ef þessir drykkir innihalda kolvetni með háan sykurstuðul geta þeir valdið sveiflum í blóðsykri. Íþróttadrykkir geta verið hjálplegir við kringumstæður þar sem líkaminn hefur tæmt sykurforða sinn, eins og gerist t.d. í löngum hlaupum. Þetta ætti ekki að gerast á meðan á golfhring stendur, svo lengi sem þú hefur nærst vel fyrir hring og borðað reglulega meðan á leik stendur. Flestir íþróttadrykkir innihalda einföld kolvetni eins og glúkósa. Margir innihalda einnig frúktósa sem er notaður til að gefa meira sætubragð. Æskilegt er að styrkur kolvetna/sykurs í íþróttadrykkjum sé ekki yfir 7 prósent. Ef þú telur þig þurfa að ná blóðsykrinum upp hratt geturðu fengið þér íþróttadrykk eða orkustöng.
Að golfhring loknum er oftast mælt með kolvetnaríkum og prótínríkum mat til að endurheimta orkubirgðirnar og til að færa beindargrindarvöðvunum byggingarefni. Hér þarftu ekki að vera að forðast fituna, i sumum tilvikum getur hún verið betri kostur en kolvetnin, þitt er valið. Slepptu samt frönsku kartöflunum, það er alltaf til betri kostur.
Líkamsþyngd og meðganga
Hugtakið "circulus vitiosus" er stundum notað til að útskýra undirliggjandi orsakir ýmissa læknisfræðilegra vandamála og sjúkdóma. Á íslensku er orðið "vítahringur" talið lýsa þessu fyrirbæri best. Það sem einkennir "circulus vitiosus" er að um er að ræða hringrás sem viðheldur sjálfri sér. Tökum dæmi. Offita móður á meðgöngu eykur líkurnar á að barnið hennar muni þjást af offitu. Offita á barnsaldri eykur verulega hættuna á offitu á fullorðinsárum. Offita fullorðinnar, verðandi móður eykur hættuna á að barnið hennar muni þjást af offitu. Circulus vitiosus.
Offita er vaxandi vandamál meðal kvenna á barneignaraldri. Í Bretlandi er helmingur þessarra kvenna með ofþyngd eða offitu. Með ofþyngd er átt við líkamsþyngdarstuðul á bilinu 25.0 - 29.9 en með offitu er átt við líkamsþyngdarstuðul yfir 30.0. Á timabilinu 1997 til 2008 jókst tíðni offitu meðal kvenna á barneignaraldri (16 - 44 ára) í Bretlandi úr 14.2 prósent í 20.2 prósent.
Annað vandamál meðal barnshafandi kvenna er of mikil þyngdaraukning meðan á meðgöngu stendur. Í Evrópu og Bandaríkjunum er áætlað að 20 - 40% kvenna þyngist of mikið í meðgöngu. Mörgum konum sem þyngjast of mikið í meðgöngu gengur illa að ná fyrri líkamsþyngd að lokinni fæðingu.
Há líkamsþyngd verðandi móður eða mikil þyngdaraukning í meðgöngu eykur tíðni meðgönguvandamála. Meiri hætta er á meðgöngusykursýki ef barnshafandi konur eru of þungar. Með aukinni líkamsþyngd móður aukast líkurnar á að beita þurfi keisaraskurði, nota þurfi áhöld til hjálpar við fæðingu auk þess sem meiri líkur eru á að barnið þurfi að leggjast á nýburagjörgæsludeild að fæðingu lokinni. Ofþyngd eða offita hjá móður eykur verulega hættuna á að barnið verði of feitt. Offita í bernsku felur í sér auknar líkur á offitu á fullorðinsárum. Robert H. Lustig læknir við Háskólann í Kaliforníu tekur þetta vandamál sérstaklega fyrir í nýjasta myndbandi sínu,"extra large kynslóðin", sem gefið var út fyrir nokkrum dögum og er sannarlega vert að skoða.
Offita í barnæsku eykur umtalsvert líkurnar á offitu á fullorðinsárum.
Árið 2010 var birt í Læknablaðinu íslensk rannsókn á áhrifum þyngdar verðandi mæðra á meðgönguna sjálfa, fæðinguna og ástand nýburans. Meginályktun höfunda var eftirfarandi: "Offita hefur óæskileg áhrif á heilsufar verðandi mæðra og barna þeirra. Áhrifin koma fram á meðgöngu, í fæðingu og hjá börnum þeirra. Mikilvægt er að konur á barneignaraldri fái upplýsingar um hvaða áhrif offita hefur á meðgöngu, fæðingu og nýbura."
Jafnframt segir í umfjöllun höfunda um rannsóknarniðurstöðurnar: "Gefa þarf leiðbeiningar um æskilegt mataræði og hreyfingu og vísa einstaklingum áfram til annarra fagaðila ef þurfa þykir til að ná þyngd niður. Eftir að kona verður þunguð þarf að gefa henni leiðbeiningar um hver sé æskileg þyngdaraukning á meðgöngu og upplýsa hana um algenga fylgikvilla offitu á meðgöngu."
Skort hefur læknisfræðilegar rannsóknir um meðferð offitu og of mikillar þyngdaraukningar á meðgöngu. Ráðleggingar til barnsahafandi kvenna um þetta efni eru nokkuð því mismundandi eftir löndum. Óvíst er hvaða leiðir eru skynsamlegastar fyrir konur sem glíma við þessi vandamál og margir sérfræðingar hafa viljað fara varlega í að ráðleggja megrun á meðgöngu af ótta við að slíkt geti haft áhrif á vöxt fóstursins.
í nýjasta tölublaði British Medical Journal birtist grein sem fjallar um árangur ýmissa aðferða til að draga úr óæskilegum afleiðingum offitu meðal verðandi mæðra. Höfundarnir tóku saman allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum lífsstílsbreytinga á meðgöngu og gerðu svokallaða meta-greiningu (meta-analysis). Sérstaklega voru rannsókuð inngrip sem fólu í sér breytingar á mataraæði, aukna hreyfingu, eða báða þessa þætti. Breytingar á mataræði fólu í flestum tilvikum í sér fækkun hitaeininga, en hefðbundinni hlutfallsskiptingu milli orkugjafa var haldið, þ.e. 50-55 prósent kolvetni, 15-20 prósent prótín og að hámarki 30 prósent fita.
Inngrip sem fólu í sér breytt mataræðu eingöngu virtust skila mestum árangri til að draga úr líkamsþyngd verðandi mæðra. Inngripin höfðu hins vegar ekki marktæk áhrif á þyngd nýburans. Breytingar á mataræði skiluðu sér einnig í lægri tíðni meðgöngueitrunar, meðgönguháþrýstings og meðgöngusýkursýki. Niðurstöðurnar benda ekki til þess að breytingar á mataræði, í því skyni að draga úr líkamsþyngd eða þyngdaraukningu á meðgöngu, séu skaðlegar fyrir verðandi mæður eða fóstur. Sama gildir um aukna líkamshreyfingu á meðgöngu. Meginályktun vísindamannanna er að breytingar á mataræði og lífsstíl verðandi móður geta dregið úr þyngdaraukningu og tíðni fylgikvilla á meðgöngu án þess að hafa neikvæð áhrif á fóstrið.
Flestir sérfræðingar eru sammála um að forvarnir séu lykilatriði í þessu efni. Hins vegar er spurningin hvar forvarnirnar eiga að byrja. Eiga þær að byrja í meðgöngunni, hjá hinu nýfædda barni eða hjá ungum konum áður en þær verða barnshafandi? Sennilega þarf að beita forvörnum á öllum þessum vígstöðvum samtímis ef árangur á að nást.
Heilsa ungra verðandi mæðra, líkamsástand og holdafar getur því haft mikil áhrif á heilsufar komandi kynslóða. Þótt hægt sé að grípa til aðgerða á meðgöngunni sjálfri er líklega mun áhrifameira gera það áður en konan verður banshafandi. Fræða þarf ungar stúlkur og verðandi mæður um mataræði og heilbrigðan lífsstíl. Áhrifamest er að byrja strax í bernsku. Kenna þarf börnum á einfaldan hátt grunnatriði næringarfræðinnar. Þau þurfa að læra að velja og þekkja það sem er hollt. Kennum börnunum að þekkja mismunandi tegundir grænmetis og ávaxta, kennum þeim að skoða þessar vörur og meta ferskleika þeirra. Kennum þeim að þekkja gott hráefni og eiginleika þess. Kennum þeim um óhollustu skyndibitans, unninna kolvetna, sykraðra drykkja, sælgætis og snakks af ýmsu tagi.
Það læra börnin sem fyrir þeim er haft
Þá er komið að körlunum, hlutverki þeirra og ábyrgð. Reynslan hefur reyndar kennt mér að konur hafa yfirleitt meiri áhuga á mataræði en karlar. Á einhvern hátt virðist konum frekar í blóð borinn skilningur á því að það sem við látum ofan í okkur mótar heilsu okkar. Karlmenn, aftur á móti, hegða sér oft á tíðum eins og þeir hafi ekki hugmynd um að það sem þeir láta ofan í sig geti haft einhver áhrif á líkamsástandið. Þeim myndi aldrei detta í hug að mata bílinn sinn á sambærilegu eldsneyti og þeir láta ofan í sig sjálfir. Ábyrgð karlanna er hins vegar ekki minni en kvennanna. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.
Það getur verið býsna erfitt að breyta hegðunamynstri sem fest hefur rætur í samfélaginu. Þetta á ekki síst við þegar kemur að mataræði og matarmenningu. Það fékk Jamie Oliver sannarlega að reyna í krossferð sinni til Huntington, West Virginia, í Bandaríkjunum. Hér er samantekt á þessu skemmtilega myndefni ef einhver skyldi ekki hafa séð það.
Offita. Hvar stöndum við?
Offita er algengt heilsufarsvandamál víða á Vesturlöndum, ekki síst í Bandaríkjunum. Þetta vandamál hefur einnig farið hratt vaxandi á Norðurlöndunum undanfarin ár, þar með talið á Íslandi. Nýlegar rannsóknir benda til þess að um þriðjungur fullorðinna Bandaríkjmanna (34 prósent) þjáist af offitu. í grein sem birt var nýverið í American Journal of Preventive Medicine kemur fram að reiknað er með að tíðni offitu muni aukast enn frekar á næstu árum og verði um 42 prósent meðal fullorðinna Bandaríkjamanna árið 2030. Vandamálið er ekki síst alvarlegt í ljósi þess að aukinni offitu mun fylgja aukin tíðni sykursýki og hjarta-og æðasjúkdóma. Þessir sjúkdómar eru vandmeðhöndlaðir og dýrir fyrir samfélagið.
Niðurstöður áhugaverðrar og metnaðarfullrar rannsóknar á holdafari 18 ára íslenskra framhaldsskólanema voru birtar í síðasta hefti Læknablaðins. Fyrsti höfundur greinarinnar er Sigurður Árni Arngrímsson þjálfunarlífeðlisfræðingur. Niðurstöður rannsóknarinnar voru að samkvæmt líkamsþyngdarstuðli (BMI) voru 23 prósent nemenda of þungir/feitir, 20 prósent höfðu of mikið mittismál og 51prósent greindust með of hátt hlutfall líkamsfitu. Hlutfallslega fleiri drengir (33 prósent) en stúlkur (22 prósent) voru of feitir. Einungis 34 prósent ungmennanna náðu ráðlagðri hreyfingu dag hvern. Nemendur í verknámsskólum virtust verr á sig komnir en nemendur í bóknámsskólum. Ekki var gerð sérstök úttekt á mataræði framhaldsskólanemanna en höfundar telja að kyrrseta eigi verulegan þátt í slæmu líkamsástandi þeirra. Talið er að stór hluti íslenskra barna og unglinga uppfylli ekki hreyfiráðleggingar Lýðheilsustöðvar. Höfundarnir telja að hugsanlega megi rekja þessa þróun til aukins sjónvarpsáhorfs, aukinnar tölvuleikjanotkunar og breyttra ferðahátta.
Kolbeinn Guðmundsson barnalæknir og formaður Félags um innkirtlafræði ritar grein sem einnig birtist í síðasta tölublaði Læknablaðsins. Þar kemur fram að vaxandi hópur unglinga hér á landi er að birtast með forstig áunninnar sykursýki og jafnvel að greinast með áunna sykursýki. Tvöföldun hefur orðið á tíðni meðgöngusykursýki hér á landi undanfarin ár, sem er beint tengt aukinni þyngd kvenna. Kolbeinn bætir við að þetta hafi í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir mæður og börn þeirra og útgjöld í heilbrigðiskerfinu. Dæmi um önnur vandamál sem tengjast vaxandi tíðni offitu eru blóðfituvandamál, blöðrueggjastokkar og háþrýstingur.
Offita er flókið vandamál sem á sér margþættar orsakir. Þótt margir haldi því fram að vandamálið snúist einungis um hversu margar hitaeiningar þú innbyrðir og hversu mörgum þú brennir, þá er ljóst að vandinn er flóknari en svo. Fyrir um 50 árum síðan kom út bók eftir bandarískan lækni, Herman Taller. Bókin, sem bar heitið Calories Don´t Count, vakti reyndar ekki mikla athygli á þessum tíma. Ein frásögn Tallers hefur þó staðist tímans tönn. Taller var feitur maður alla sína tíð. Hann lýsti sjálfum sér sem "einn af þeim sem ekki gat horft á skál af spagettí án þess að þyngjast". Hann hélt því sjálfur fram að hann borðaði fremur lítið en var að sjálfsögðu ekki trúað. Hann ákvað því að gera litla tilraun.
Taller bauð samstarfsmanni sínum, sem var grannholda og vel á sig kominn, með sér í smáfrí. Þessi kollegi Tallers stórefaðist um að lýsingar Tallers á hversu lítið hann borðaði væru sannar. Hann sagðist hafa heyrt svipaðar lýsingar hjá mörgum sjúklinga sinna sem þjáðust af offitu. Þeir segðust alltaf fitna og fitna þótt þeir borðuðu lítið sem ekkert. Þeir félagar dvöldu saman á litlu sveitahóteli í 10 daga og skildust ekki að. Þessa daga voru þeir á nákvæmlega sama mataræði sem innihélt fáar hitaeiningar, mikið gænmeti og litla fitu. Á kvöldin drukku þeir kokteil, enda voru þeir í fríi. Í lok dvalarinnar hafði hinn grannholda kollegi Tallers lést um tæpt kíló en Taller hafði bætt á sig fjórum kílóum. Þessi litla tilraun Tallers bendir sannarlega ekki til þess að vandinn snúist bara um hitaeiningar. Vissluega var ekki um að ræða eiginlega vísindarannsókn en frásögnin vekur þó ýmsar spurningar.
Áhugavert er að skoða kenningar Robert H. Lustig barnalæknis við Háskólann í San Francisco um tilurð offitu. Hann er sammála því að offita snúist alls ekki um "hitaeiningar út og hitaeiningar inn". Lustig er nú að gefa út seríu stuttra myndbanda sem bera heitið "The Skinny on Obesity" sem gæti útlagst á íslensku sem "Staðreyndir um offitu". Þótt einhverjir kunni að líta á þetta sem áróðursmyndbönd eru þættirnir vandaðir, áhugaverðir og virkilega fróðlegir. Lustig sker upp herör gegn skyndibitaiðnaðinum og óhóflegu sykuráti. Tilgangurinn helgar meðalið. Þættina geturðu séð hér.
Meðferð offitu ber oft lítinn árangur. Vandmálið er ekki einfalt. Bandarískar rannsóknir sýna að 80 prósent af þeim sem ná að léttast, þyngjast aftur og verða jafnvel enn þyngri en áður en megrunin hófst. Forvarnir eru því gríðarlega mikilvægar. Aukinn skilningur á tilurð offitu, fræðsla til almennings om mataræði, hreyfingu og heilbrigða lífshætti er fyrsta skrefið. Rannsóknir hafa sýnt að 77 prósent af börnum sem eru of feit munu þjást af offitu á fullorðinsárum en aðeins 7 prósent af börnum með eðlilega líkamsþyngd. Ef forða á næstu kynslóð frá offituvandanum þarf gríðarlegt samfélagsátak sem ekki síst þarf að beinast að börnum og unglingum.
Í þessu samhengi er vert að skoða áhrifaríkan verðlaunafyrirlestur hins þekkta breska matreiðslumanns, Jamie Oliver frá 2010: Jamie Oliver´s TED Prize Wish: Teach Every Child About Food.
"I wish for everyone to help create a strong, sustainable movement to educate every child about food, inspire families to cook again and empower people everywhere to fight obesity". Jamie Oliver 2010