Greinar

Lýðheilsuáhrif reglulegra göngutúra

33662519 m

Enn á ný hafa vísindamenn sýnt fram á hversu auðvelt er að bæta heilsuna. Svo virðist sem hægt sé að gera það án lyfja, fæðubótarefna og annarra hjálpartækja. 

Nýjar rannsóknarniðurstöður sem birtar voru í tímaritinu American Journal of Preventive Medicine sýna að reglulegir, jafnvel stuttir, göngutúrar tengjast langlífi. 

Skoðuð voru gögn 62 þúsund karla og 77 þúsund kvenna sem tóku þátt i faraldsfræðilegri rannsókn í Bandaríkjunum. Meðalaldur karlanna var 71 ár og kvennanna 69 ár. Þáttakendunum var fylgt eftir í 13 ár.

Tæplega 6% karlanna og tæplega 7% kvennanna stunduðu enga regubundna hreyfingu. Þessir einstaklingar voru 26% líklegri til að deyja á rannsóknartímabilinu en einstaklingar sem stunduðu reglulega göngutúra. Göngurnar tengdust lægri dánartíðni vegna öndunarfærasjúkdóma, hjarta-og æðasjúkdóma og krabbameina.

Þessar jákvæðu niðurstöður standa óbreyttar eftir að leiðrétt hefur verið tölfræðilega fyrir þáttum eins og reykingum, offitu og langvinnum sjúkdómum.

Rannsóknin bendir til þess að betra sé að ganga meira en minna. Hins vegar sýnir hún glögglega að ekki þarf að ganga mikið til að auka lífslíkur. Þannig virðist nóg að ganga tvær klukkustundir á viku til að bæta heilsuna umtalsvert. 

Aldursstöðluð dánartíðni þeirra sem ekki hreyfðu sig reglulega var 4.293 per 100.000 einstaklinga á rannsóknartímabilinu. Hins vegar var aldursstöðluð dánartíðni þeirra sem hreyfðu sig lítllega 2.851 per 100.000. Munurinn er 1442 dauðsföll per 100.000 einstaklinga á 13 ára tímabil sem verður að teljast ótrúlega mikið. 

Faraldsfræðileg rannsókn sem þessi getur ekki sannað orsakasamband. Hins vegar eru niðurstöðurnar svo sláandi að ekki er annað hægt að álykta en að lýheisuáhrif göngutúranna séu umtalsverð. 



© Axel F Sigurdsson 2012